Á rum saman möluðu álitsgjafarnir um að kjörnir stjórnmálamenn væru flestir ómögulegir. Það yrði að fá fagmenn í ráðherrastólana. „Utanþingsstjórn strax“ var ein dellukrafan sem stundum heyrðist.
Ætli þessir menn séu ennþá ánægðir með Gylfa Magnússon?
E itt helsta óþarfaverk núverandi ríkisstjórnar var að knýja fram kosningu á sérstakt stjórnlagaþing, sem mun vera trúaratriði stjórnspekinganna Jóhönnu Sigurðardóttur og Sivjar Friðleifsdóttur, auk nokkurra álitsgjafa, sem hafa lengi slegið um sig með innihaldslausum upphrópunum um stjórnarskrána.
Stjórnarskrár eru grundvallarlög ríkja og þeim á að breyta sem allra minnst og sem allra sjaldnast. Það er ekkert alvarlegt að íslensku stjórnarskránni og engin ástæða til að endurskoða hana nú, þótt þrír bankar hafi komist í þrot. Og alls engin ástæða til þess að gera það með þeirri aðferð að blása til skyndikosningar á sérstakt stjórnlagaþing.
Reynir Axelsson stærðfræðingur skrifaði af yfirvegun um undirbúning stjórnlagaþingsins í Morgunblaðið í gær. Reynir spyr hvort ekki eigi að vanda sig við að breyta stjórnarskrá og segir það vekja „ugg og tortryggni“ hversu skammur tími sé gefinn til framboðs á þetta stjórnlagaþing.
Í lögunum segir að kosning til stjórnlagaþings skuli fara fram í síðasta lagi 30. nóvember 2010, sem er þriðjudagur, og að framboðum skuli skila ekki síðar en fjörutíu dögum fyrir kjördag. Ef gert er ráð fyrir að kosningin sé á laugardegi, eins og oftast er, þá er 27. nóvember síðasti kostur, og þá þarf að skila framboðum í síðasta lagi á hádegi mánudaginn 18. október. Stjórnlagaþingið á síðan að koma saman 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011; heimilt er að framlengja síðari dagsetninguna um tvo mánuði, ef þess er óskað og Alþingi samþykkir. Framboðsfresturinn er afar stuttur. Hverjir ætli séu tilbúnir að ákveða vel fyrir miðjan október að bjóða sig fram til stjórnlagaþings? Venjulegt fólk í venjulegri atvinnu þarf kannski lengri frest til að tryggja að það geti losað sig úr starfi meðan stjórnlagaþingið stendur án þess að stofna allri framtíð sinni í hættu. Er ekki hætta á að þeir sem hafa tök á að bjóða sig fram séu annað hvort á snærum stjórnmálaflokka eða hagsmunasamtaka, og kannski slæðingur af lögfræðingum, uppgjafapólitíkusum og fjölmiðlafólki? |
Það versta við stjórnlagaþingsmeinlokuna er að vísu ekki þessir tímafrestir. En þeir eru vísbending um það sem stendur til. Það á að skjóta þessu stjórnlagaþingi á, með eins skömmum fyrirvara og unnt er, og svo á að fylla það af dæmigerðum gapuxum þessara missera, úrvali þeirra sem mest hafa fullyrt undanfarið í greinum og spjallþáttum, og þeim er ætlað að bera fram helstu upphrópanir og skyndilausnir sínar og festa í grundvallarlög landsins.
Það var ömurlegt að fylgjast með síhræddum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins gefast upp í baráttunni gegn þessari meinloku. Meira að segja Jóhönnu Sigurðardóttur, sem oft hefur haft þá undir, kom uppgjöf þeirra á óvart, og sagði hún það „kraftaverk“ að sér hefði tekist að koma stjórnlagaþinginu í gegn. En þingflokkur Sjálfstæðisflokksins nú um stundir er auðvitað eins og hann er, þar sem hver stöðumetarinn á eftir öðrum skelfur og spyr hvort öll andstaða sé ekki svakalega illa liðin á blogginu.