Í síðustu viku kallaði Felipe Calderon forseti Mexíkó eftir umræðu um kosti og galla þess að afnema bann við fíkniefnum. Yfir 28 þúsund manns hafi fallið á síðustu tveimur árum í stríði stjórnvalda og fíkniefnasala og innbyrðis slagsmálum sölumannanna. Það eru tvöfalt fleiri en fallið hafa í Írak frá ársbyrjun 2008 þar sem „uppreisnarmenn“ hafa það eina markmið að drepa sem flesta. Calderon tók þó fram að hann væri andvígur afnámi bannsins. Hann hefur beitt hernum í baráttunni undanfarið án sýnilegs árangurs.
Forveri hans í embætti, Vicente Fox, bætti svo um betur á bloggsíðu sinni með því að lýsa því hreinlega yfir að „fortakslaus bannstefna hefði aldrei virkað“ og menn ættu að hugleiða í alvöru að leyfa framleiðslu og sölu fíkniefna.
Afnám bannsins þýðir ekki að fíkniefni séu af hinu góða. En við verður að líta á afnám bannsins sem tilraun til að rjúfa þann efnahagslega vítahring sem gerir fíkniefnagengjum að hagnast gríðarlega og koma í veg fyrir að þau noti þennan gróða til að eflast og eitra út frá sér. |
Hinn gríðarlegri hagnaður glæpasamtakanna sem stjórna fíkniefnaframleiðslunni víða um heim gerir þeim mögulegt að spilla stjórnmála- og embættismönnum, lögreglu og dómurum og fjármagna aðra glæpastarfsemi. Af þessum sökum hefur þurft að skilja fíkniefnalögreglu frá annarri lögreglu. Ef mútur duga ekki til að beygja stjórnkerfið er gróðinn svo einfaldlega notaður til að fjármagna vopnuð átök við stjórnvöld.
Þessi glæpastarfsemi myndi án efa hrynja til grunna ef framleiðsla og sala fíkniefna yrði gefin frjáls.