N ú hafa einstaklingar efnt til fjársöfnunar til styrktar Ómari Ragnarssyni, hinum kunna fjölmiðlamanni og þúsundþjalasmiði. Er ekki að efa að margir munu vilja gauka lítilræði að Ómari í þakklætis- og vinsemdarskyni fyrir áratuga mannlífssýsl, fróðleik og skemmtun, þar á meðal margir þeir sem ekki deila með honum öllum þeim sjónarmiðum sem hann hefur sett fram á síðustu árum, eða fella sig ekki við allar þær aðferðir sem hann hefur beitt.
Ómar Ragnarsson er vissulega óvenjulegur maður og jafnvel margir þeirra, sem mun þykja hann nokkuð yfirþyrmandi á stundum, kunna því eflaust vel að safnað sé frjálsra framlaga til styrktar Ómari. Það hafa margir farið offari í málflutningi á síðustu misserum. Ómar hefur stundum haft uppi stór orð um menn og málefni, orð sem róleg yfirferð myndi sýna að hefðu hreint ekki alltaf verið makleg, en öfugt við marga slíka stóryrðamenn hefur Ómar einnig um áratugaskeið bæði frætt og glatt þúsundir manna.
Vafalaust hefur þessi sérstaða Ómars átt sinn þátt í því að fyrri stjórnvöld reyndu að rétta honum hjálparhönd, þegar hann stóð í sem strangasti baráttu. Er það ekki rétt munað hjá Vefþjóðviljanum, að Landsvirkjun hafi styrkt Ómar um átta milljónir króna eða svo, til að rétta honum róðurinn þegar hann stóð sem verst í kostnaðarsamri baráttu sinni gegn virkjunum á hálendinu? Að vísu er sjaldan á þessar milljónir minnst, og sumir virðast fremur vilja trúa því að reynt hafi verið að „þagga niður í Ómari“.
En auðvitað er vafasamt þegar opinbert fé er notað til slíkra styrkja, jafnvel þótt svo óvenjulegur maður eigi í hlut. Mun eðlilegra er að efna til frjálsra samskota eins og nú hefur verið gert. Þá geta þeir sem vilja þakka Ómari eitthvað, hvort sem það er skemmtanahald, dægurvísur sem munu lifa, eftirminnilegir sjónvarpsþættir eða barátta gegn framkvæmdum, gert það. Enginn er hins vegar skyldaður til neins. Stundum finnst Vefþjóðviljanum Ómar Ragnarsson vaða annan og meiri reyk en þann frá nýjustu gosstöðvunum, vel getur blaðið unnt honum góðra undirtekta við þessari fjársöfnun.
F orseti Rússlands greindi frá því á dögunum að nú væri skammt þar til íranska ríkisstjórnin hefði komið sér upp kjarnorkuvopnum. Rússar hafa lengi borið blak af Írönum og dregið úr tilraunum Vesturlanda til að hindra kjarnorkuvopnavæðingu æjatollans og hans manna. En nú segja þeir örstutt í að Íranir nái sér í kjarnorkuvopn. Ef Vesturlandabúar ætla ekki að vakna upp við kjarnorkuvopnaðan Ahmadinejad þá verða þeir að bregðast skjótt við og nú duga greinilega engin vettlingatök lengur. Nú dugir ekkert minna en alþjóðlegar hringborðsviðræður og ef Íranar láta sér samt ekki segjast hlýtur að vera komið að harðorðri ályktun alþjóðasamfélagsins.
Þá er hætt við að þeir í Teheran yrðu hugsi.