Þ eim fækkar jafnt og þétt röksemdunum sem Evrópusambandssinnar færa fram fyrir því að Íslendingar haldi áfram að “sækja um” aðild að Evrópusambandinu eins og það sé eitthvað sem þeir sækist almennt eftir.
Síðasta hálmstráið er að best sé að halda áralangri umsókn áfram til að “koma málinu út úr heiminum” með þjóðaratkvæðagreiðslu þegar aðildarsamningur liggur fyrir. Það er látið eins og umsóknin, kosningabarátta og þjóðaratkvæðagreiðsla kosti ekkert. Utanríkisráðherra telur að umsóknin muni kosta 990 milljónir króna og er það til muna lægsta talan sem nefnd hefur verið í þessu samhengi. Aðrir hafa nefnt kostnað upp á 7.000 milljónir króna.
Og svo vel vill til að Andríki fékk MMR í síðasta mánuði til að gera viðhorfskönnun um þennan kostnað. Þar var spurt: Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis, frá því í maí síðastliðnum, kemur fram að gert er ráð fyrir að beinn kostnaður vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu geti numið samtals 990 m.kr. á tímabilinu 2009-2012. Hversu vel eða illa telur þú að þeim fjármunum sé varið?
Skemmst er frá því að segja að einungis 19,9% svarenda telja 990 milljónum króna frekar eða mjög vel varið í umsókn um aðild að ESB. Á hinn bóginn telja 66,9% þessum fjármunum frekar eða mjög illa varið á þennan hátt. Nær annar hver telur að þessum fjármunum sé mjög illa varið. Þegar aðeins 19,9% svarenda telja 990 milljónum vel varið í aðildarumsókn liggur ljóst fyrir að útgjöld vegna aðildarumsóknar eiga ekki mikinn stuðning.
Og svo er það þetta með að koma málinu út úr heiminum með því að ganga svo langt að ríkisstjórnin skrifi undir aðildarsamning sem fer í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðslur koma engu út úr heiminum hvað Evrópusambandið varðar nema niðurstaða þeirra sé sambandinu þóknanleg. Hér var til að mynda sýnishorn af þeirri stefnu Evrópusambandsins að láta þjóðatkvæðagreiðslur í einstaka ríkjum setja sig út af laginu. Danir felldu Maastricht-sáttmálann en voru þá látnir kjósa um hann aftur eftir breytingar til málamynda. Svíar höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu en áfram heldur baráttan þar í landi fyrir evru.
Staðreyndin er að þegar sambandið fer halloka í slíkum atkvæðagreiðslum er málum hnikað örlítið til og þau svo send aftur í atkvæðagreiðslu í von um rétta niðurstöðu.
Það er því engu komið út úr heiminum með þjóðaratkvæðagreiðslum um málefni Evrópusambandsins. Norðmenn hafa tvívegis fellt aðild að sambandinu en hafa Evrópusambandssinnar þar í landi grjóthaldið kjafti síðan? Nei aldeilis ekki.