Föstudagur 16. júlí 2010

197. tbl. 14. árg.

H vaða vald getur ríkið tekið sér? Eins og dæmin sanna hefur það tekið sér nær allt vald þegar verst lætur. En með réttu ætti ríkið ekki að hafa annað vald en einstaklingarnir hafa áður haft og hafa framselt því af fúsum vilja.

Einstaklingar hafa til að mynda rétt til sjálfsvarnar, gegn ofbeldi, þjófnaði og öðrum yfirgangi. Þeir geta því komið sér saman um að ríkið taki þátt í þessari sjálfsvörn með löggæslu og réttarkerfi.

En getur einhver með sanngirni haldið því fram að einstaklingar hafi siðavald yfir öðrum einstaklingum og geti með réttu framselt það ríkisvaldinu til að leiða fólk af glapstigu í siðferðismálum? Þetta er auðvitað gert á hverjum degi. Síðast var girt fyrir að fullorðið fólk gæti leyst niður um sig á þar til gerðum nektarstöðum. Lögreglan skakkar nú leikinn ef einhver gerist svo djarfur. Hið sama má segja um vændi og reykingar á veitinga- og skemmtistöðum sem enginn er neyddur inn á.

Lysander Spooner víkur að þessari tilhneigingu til að refsa fyrir siðferðisbresti eða lesti í bók sinni Löstur er ekki glæpur:

Markmiðið með refsingu fyrir glæpi er því ekki aðeins að öllu leyti annað en með refsingu fyrir lesti heldur í algjörri andstöðu við það. Markmið með refsingu fyrir glæpi er að tryggja öllum á sama hátt eins mikið frelsi og mögulegt er – í samræmi við jafnan rétt annarra – til að leita eigin hamingju undir leiðsögn eigin dómgreindar og með nýtingu eigin eigna. Markmiðið með refsingu fyrir lesti er hins vegar að svipta alla menn meðfæddum rétti og frelsi til þess að leita eftir hamingju að eigin hyggjuviti og með nýtingu eigin eigna. Þessi tvö markmið eru því algjörar andstæður.