Þ að virðist talsverður áhugi á því meðal fjölmiðlamanna hver verður næsti forstjóri Íbúðalánasjóðs. Minna fer fyrir áhuga á stöðu sjóðsins. Sjóðurinn var helsti sökudólgurinn í verðbólumyndun á húsnæðismarkaði með því efna til æðisgenginnar keppni við bankana með 90% lánum árið 2004. Um leið gekk hann gegn vaxtastefnu seðlabankans sem átti að draga úr áhuga manna á fjárfestingum.
Sjóðurinn hefur nú leyst til sín mörg hundruð íbúðir sem hann lánaði fólki fé til að kaupa á uppsprengdu verði. Þrátt fyrir veika stöðu hefur sjóðurinn ekki selt eða leigt þessar íbúðir heldur lúrir á þeim. Framkvæmdastjóri sjóðsins hefur lýst því yfir að sjóðurinn vilji ekki valda meira offramboði á húsnæði en orðið er með tilheyrandi verðfalli.
Frekara verðfall húsnæðis myndi lækka vísitölutengd lán – þar til hæstiréttur dæmir að menn hafi í raun ekki fengið krónur að láni til íbúðakaupa heldur í raun steypu og mótatimbur – og það kæmi mörgum vel. Húsnæði vegur þungt í vísitölum. Íbúðalánasjóður heldur verðbólgunni uppi með þessari íbúðasöfnun.
En það er ekki síður aðfinnsluvert að með þessari stefnu gengur sjóðurinn augljóslega gegn ákvæðum laga um húsnæðismál. Í 1. grein þeirra laga segir:
Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. |
Er það ekki augljóst að með því að hanga eins og hundur á roði á mörg hundruð íbúðum er Íbúðalánasjóður að gera tilraun til að halda uppi verði á húsnæði og koma í veg fyrir að fólk geti eignast eða leigt húsnæði á viðráðanlegum kjörum?