Í gær fjallaði Vefþjóðviljinn um þá hótun borgarfulltrúa Besta flokksins í Reykjavík að hækka fasteignagjöld sem lögð eru á Reykvíkinga, svo að borgin fái jafn margar krónur af fasteignagjöldum, þrátt fyrir tæplega 9% lækkun fasteignamats. Borgarfulltrúar nýja meirihlutans vilja fá jafn mikið og áður í skatt af fasteignum, þótt verðmæti þeirra hafi minnkað verulega.
Í dag talaði Ríkisútvarpið við Halldór Halldórsson, formann Samtaka sveitarfélaga – og nefndi hann Halldór Jónsson af ástæðum sem Vefþjóðviljinn veit ekki hverjar voru. En Halldór var á sömu skattalínunni og borgarfulltrúi Besta flokksins var í gær. Sveitarfélögin verða að bæta sér upp tekjutapið, segir Halldór, sem greinilega telur íbúana vera ótæmandi auðlind sveitarstjórnarmanna.
Hvernig er það, fer ekki að verða kominn tími til að þessir spekingar sem stýra sveitarfélögum vítt og breitt um landið, fari að lifa í samhengi við raunveruleikann? Sveitarfélög hafa flest verið ákaflega illa rekin undanfarin ár, peningum eytt og eytt í verkefni sem engin lagaskylda var á sveitarfélögunum að sinna. Nú verða sveitarstjórnarmenn einfaldlega að spara og hætta öllum verkefnum sem ekki er bein lagaskylda að sinna. Þeir verða að fara að láta skattgreiðendur í friði.
Og ekki virðast þeir hótinu betri „nýju mennirnir“ sem kosnir voru til valda í vor. Þegar fasteignamat er lækkað, til marks um lækkandi fasteignaverð, dettur Besta flokknum fyrst í hug að hækka nú fasteignaskattana.
Samkvæmt skoðanakönnun Morgunblaðsins nýtur nýr meirihluti í Reykjavík rúmlega 70% stuðnings. Þegar minnihlutinn í borgarstjórn þorir ekki að vera á móti vinstrimeirihlutanum, þá er kannski ekki við öðru að búast en að meirihlutinn njóti mikils stuðnings.