R íkisútvarpið sagði í hádeginu tvær fréttir sem snerta fjármál Reykjavíkurborgar. Sú fyrri sagði frá því að sveitarfélögin „yrðu af“ um sjöhundruð milljónum króna vegna lækkunar fasteignamats. Tekjur Reykjavíkurborgar myndu þar lækka um 270 milljónir króna eða svo, ef hún hækkaði ekki fasteignaskattana til samræmis við lækkun matsins. Rætt var við Óttar Proppé, borgarfulltrúa Besta flokksins, og var helst á honum að skilja að borgin myndi hækka fasteignaskattana svo að hún fengi sömu fjárhæð frá fasteignareigendum, þótt matsvirði fasteigna þeirra hefði lækkað. Fréttamaður Ríkisútvarpsins hafði hins vegar mestan áhuga á því hversu mikið „svigrúm“ sveitarfélögin hefðu til að hækka skattana, ef miðað væri við hæsta skatthlutfall sem lög heimiluðu.
Síðari fréttin var um útgjöld Reykjavíkurborgar. Sagði þar:
Efling atvinnulífs er forgangsmál meirihlutans í Reykjavík. Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri lagði á fundi borgarráðs fyrir helgi fram tillögu um breytingar á fjárhagsáætlun til að skapa fleiri störf í borginni. Breytingarnar fela í sér að fimm hundruð milljónum króna sem átti meðal annars að verja til kaupa á eignum verði varið til sérstakra atvinnuátaksverkefna til viðbótar við þær eitthundrað og fimmtíu milljónir sem verja átti í atvinnumál á fjárhagsáætlun þessa árs. Gert er ráð fyrir að allt að hundrað og fimmtíu manns geti fengið vinnu til áramóta. Meðal verkefna sem ráðist verður í er endurgerð göngu- og hjólaleiða og leiksvæða og viðhald á húsum í eigu borgarinnar. Afgreiðslu tillögunnar var frestað og verður hún rædd á sérstökum aukafundi borgarráðs á morgun. Verði tillaga borgarstjóra samþykkt verður alls framkvæmt fyrir sex og hálfan milljarð króna á vegum borgarinnar í ár. |
Í framhaldi af þessum lestri var rætt við Dag B. Eggertsson, sem sagði „beinlínis brýnt“ að opinberir aðilar stæðu fyrir miklum framkvæmdum, og bætti því að „við vonum að með þessum áherslubreytingum þar sem við förum í enn frekari mannaflsfrek verkefni að þá fylgi aðrir í kjölfarið, bæði fyrirtæki og einstaklingar.“
Ætli vinstrimenn haldi að þeir geti skattlagt og skattlagt, án þess að það hafi nein áhrif á þá sem borga skattana? Ef horft er á þessar tvær fréttir dagsins, þá virðist lítill skilningur á því í ráðhúsinu að almennir Reykvíkingar séu annað en „tekjustofn“ fyrir borgaryfirvöld. Aðstæður á markaði hafa gjörbreyst og fasteignir eru verðminni en áður. Það leiðir að sjálfsögðu til lægra fasteignamats og þar sem fasteignaskattar eru lagðir á fasteignareigendur eftir ætluðu verðmæti fasteigna þeirra, þá ætti slík þróun að leiða til þess að innheimtur fasteignaskattur lækki. Borgarfulltrúi Besta flokksins lítur hins vegar ekki svo á. Honum finnst ekki að sú staðreynd, að fasteign Jóns Jónssonar Reykvíkings hefur lækkað í verði, eigi að leiða til þess að Jón Jónsson greiði lægri fasteignagjöld. Nei, hann ætlar auðvitað að hækka skattprósentuna svo að borgarfulltrúar hafi jafn mikið til að útdeila og gera „skemmtilega hluti“. Jón skiptir engu máli. Fasteignin hans hefur lækkað í verði, en það er hans mál. Borgarfulltrúum Besta flokksins kemur það ekki við.
Í næstu frétt er sagt frá því að meirihlutinn ætli að setja hálfan milljarð króna til viðbótar í „mannaflsfrekar framkvæmdir“. Borgin fær tekjur sínar frá borgarbúum. Peningana sem hún notar til að „skapa störf“ tekur hún úr vasa borgarbúa sem þar með hafa jafn mörgum krónum minna í eigin vasa. Það er stundum eins og stjórnmálamenn haldi að störf skapist aðeins þegar hið opinbera eyði peningum, en eyðsla hins almenna skattgreiðanda fari bara út í geiminn. Skattpíndir einstaklingar fresta framkvæmdum. Þeir fresta viðgerð á bílnum, þeir hætta við að fara út að borða, þeir kaupa sér ekki ný spariföt, þeir gera það sem þeir mögulega geta til að halda sjó. Allt hefur þetta hins vegar áhrif, því úti um allt er annað fólk sem fær ekki viðskipti vegna þessa.
Svo fer bifreiðaverkstæði í höfuðið af því að fólk frestar viðgerðinni. Bifvélavirkinn gengur atvinnulaus og þá koma Jón Gnarr og Dagur og hækka fasteignagjöld til að hafa efni á því að ráða bifvélavirkjann til að laga göngustíg. Veitingastaðir loka því fólk sleppir því að fara út að borða. Kokkur missir vinnuna og þá þarf útsvarið að vera nógu hátt svo að borgin geti ráðið kokkinn til að mála hjólabraut.
Bifvélavirkinn og kokkurinn verða ánægðir með borgaryfirvöld sem sýndu ábyrgð á erfiðum tímum og hófu átaksverkefni. Dagur B. Eggertsson kemur í fjölmiðla og heldur alvarlega ræðu um mikilvægi mannaflsfrekra verkefna. En enginn spyr hvort ekki sé betra að borgarbúar fái að hafa peningana sjálfir og verja þeim eins og þeir sjálfir telja skynsamlegast. Að vísu fá borgaryfirvöld þá ekki hrós fyrir að halda uppi atvinnustigi. En kokkurinn fær þá kannski frekar vinnu í eldhúsi og bifvélavirkinn á verkstæði.