Laugardagur 3. júlí 2010

184. tbl. 14. árg.

E ftir að hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að í myntkörfum hafi aðeins verið íslenskar krónur virðast margir hafa skipt um skoðun. Skuldarar sem áður hrópuðu “forsendubrestur” eru nú harðir á því að samningar skuli standa. Lánveitendur sem áður töldu sig hafa ófrávíkjanlegan samning í höndunum vilja hins vegar fá ný ákvæði í samninginn.

Og svo hefur nýr hópur lagt orð í belg. Það eru talsmenn þeirra “sem tóku ekki áhættu” heldur skuldsettu sig bara með verðtryggðum húsnæðislánum í íslenskum krónum. Er það sanngjarnt að verðtryggða fólkið fái engan afslátt að sínum skuldum á meðan hæstiréttur helmingar skuldir myntkörfufólksins, spyr þessi hópur.

Nú er auðvitað fráleitt að halda því fram að skuldsetning í verðtryggðum krónum sé ekki áhætta. Það er nú aldeilis ekki á vísan að róa hvað verðbólgu varðar hér á landi. Það er bara önnur áhætta en að taka lán í erlendri mynt.

Hins vegar kemur verðtryggða fólkinu ekki við hvernig mál myntkörfufólksins velkjast í dómskerfinu. Verðtryggða fólkið er ekki aðili að þeim málum.

Og þó. Ekki sem slíkt heldur sem skattgreiðendur.

Íslenska ríkið var svo galið að endurreisa alla bankana þrjá sem fóru um koll og lauk nýlega samningum um verð á útlánum við kröfuhafa gömlu bankanna. Fyrir þessi útlán, fyrst og fremst í Landsbanka Íslands, greiddi ríkið 130 þúsund milljónir króna.

Reynist þessi útlán nú mun minna virði en ríkissjóður taldi fyrir skömmu fá skattgreiðendur skell.