Föstudagur 2. júlí 2010

183. tbl. 14. árg.

N ýr meirihluti hefur tekið við völdum í Reykjavík og annar á Selfossi.

Á Selfossi er hreinn meirihluti Sjálfstæðisflokksins undir forystu Eyþórs Arnalds. Þeir hafa ákveðið að fækka yfirmannsstöðum hjá bænum, draga mjög úr embætti bæjarstjóra og gera það að litlu framkvæmdastjórastarfi á mun lægri launum en áður.

Í Reykjavík hefur tekið við vinstrimeirihluti undir forystu þeirra Dags B. og Jóns Gnarrs. Þegar meirihlutinn tók við völdum tilkynnti Jón að forgangsmál væri að hætta „pólitískum ráðningum“. Næst var hann sjálfur kosinn borgarstjóri í Reykjavík. Flokkur Jóns gerði svo helsta samningamann sinn í meirihlutaviðræðunum við Samfylkinguna að stjórnarformanni Orkuveitunnar og ákvað að þrefalda laun hans frá því sem áður tíðkaðist hjá Orkuveitunni, sem var raunar ekki sérstaklega kunn af aðhertum sultarólum.

Já, það var aldeilis kominn tími til að fá nýja og ferska menn að valdastólunum. Þótt Dagur B. Eggertsson sem formaður borgarráðs hafi auðvitað verið allnokkur ferskleiki einn og sér, þá er þetta ágætt til viðbótar. Að sjálfsögðu efndi nýja framboðið, framboð „fólksins“ gegn „valdinu“, til valdasamstarfs við þann stjórnmálaflokk sem nú leiðir ríkisstjórn og beið afhroð í borgarstjórnarkosningunum,

Hvernig ætli valdatími nýja vinstrimeirihlutans verði? Minnihlutinn í borgarstjórn skiptist í tvennt, annar hlutinn lýtur forystu forseta borgarstjórnar en hinn hlutinn er Sóley Tómasdóttir. Ætli aðhaldið verði mikið þaðan, um nokkuð sem máli skiptir? Ætli fjölmiðlar taki við sér og fjalli um verk nýja vinstrimeirihlutans með eðlilegum hætti? Ríkisútvarpið er reyndar byrjað að nefna nýja borgarstjórann fullu nafni en ekki aðeins listamannsnafni hans, þar sem föðurnafninu er sleppt, sem gefur vissa von um að þar á bæ átti sig loksins á því að við völd er stjórnmálamaður en ekki sprelligosi. En eftir er að sjá hvernig fjölmiðlar munu fjalla um verk meirihlutans nýja, en það skiptir jafnvel enn meira máli en venjulega, ef lítils er að vænta af stjórnarandstöðunni í borgarstjórn sem virðist halda að stjórnarandstaða þurfi að skammast sín eða afsaka sig fyrir að gegna því mikilvæga lýðræðishlutverki sem stjórnarandstaða er.

Þeir Jón Gnarr og Eyþór gátu sér báðir gott orð fyrir listsköpun, þótt ólík væri, löngu áður en þeir hófu afskipti af stjórnmálum. Valdaferill þeirra byrjar hins vegar með ólíkum hætti, þó varla þurfi að taka fram, að enn er allt of snemmt að dæma hvernig til mun takast. Mikilvægt er að fjölmiðlar veiti þeim báðum eðlilegt aðhald, þótt stjórnendur Reykjavíkurborgar hljóti auðvitað að vera undir sterkara kastljósi en þeir sem stýra minni sveitarfélögum. Þá er ekki síður mikilvægt að íbúar beggja sveitarfélaga njóti kosta öflugrar stjórnarandstöðu, sem fylgist vel með verkum valdhafanna.