Þriðjudagur 29. júní 2010

180. tbl. 14. árg.

Í slenskir Evrópusambandssinnar eru gríðarlega reiðir eftir að Sjálfstæðisflokkurinn dirfðist að ítreka andstöðu sína við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og krefjast þess að aðlögunarviðræðum við sambandið yrði hætt. Stuðningsmiðlar Evrópusambandsinngöngu hafa bæði fyrir og eftir landsfund flokksins haft uppi stór orð um mikla klofningshættu flokksins, ef hann tæki ekki upp stefnu lítils minnihluta flokksmanna í málinu, og nú tveimur dögum eftir landsfund kemur í ljós að þeir voru þar sannspáir, en einn maður hefur nú þegar gengið úr flokknum svo vitað sé.

Benedikt Jóhannesson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir og nokkrir fleiri hafa sent landsfundarmönnum tóninn eftir fundinn. Einkum hefur Ragnheiður verið harðorð og sagt greinilegt að ekki rúmist nema ein skoðun í flokknum. Sama söng hafa nokkrir aðrir Evrópusambandsaðildarsinnar sungið, við mikinn skilning á Evrópusambandsaðildar-fjölmiðlunum.

Það er eins og þingmaðurinn og kórfélagar hennar skilji hreinlega ekki flokksstarf. Stjórnmálaflokkur getur ekki haft margar skoðanir á því hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Önnur hvor skoðunin, að það skuli gert eða að það skuli ekki gert, hlýtur að verða ofan á. Varla getur verið að þau ætlist til þess í raun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi enga skoðun á því hvort sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu. Þar, rétt eins og í þeim aragrúa annarra mála sem stjórnmálaflokkar álykta um, þá taka þeir afstöðu til ólíkra kosta og móta sér stefnu. Auðvitað geta einstakir flokksmenn haft aðra skoðun, og þess vegna eru greidd atkvæði á flokksfundum, en þeir eiga enga heimtingu á því að flokkurinn deili henni með þeim.

Af hverju kvartar Ragnheiður Ríkharðsdóttir ekki yfir því að önnur atriði í stjórnmálaályktun landsfundar séu með sama hætti „eina leyfða skoðunin“ um þau mál?

Velti menn nú einu fyrir sér: Ef lagt væri til í Sjálfstæðisflokknum að flokkurinn styddi aðild að Evrópusambandinu, hvernig halda menn að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Benedikt Jóhannesson, Ólafur Þ. Stephensen og karlinn í Tunglinu, myndu greiða atkvæði um þá tillögu? Miðað við þeirra eigin boðskap, eftir þennan landsfund, þá ættu þau auðvitað að segja „nei“ við því að flokkurinn ályktaði til stuðnings inngöngu, því varla vilja þau að „einungis ein skoðun sé leyfð í Sjálfstæðisflokknum“. Dettur einhverjum í hug að þetta fólk myndi gera það?

Nei varla. En hvernig stendur á því að það býður fólki upp á málflutning eins og þann sem hefur komið frá því eftir landsfundinn?

B andaríski öldungardeildarþingmaðurinn Robert Byrd er látinn, en hann hafði setið í öldungadeildinni lengur en aðrir og haft töluverð áhrif. Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá andláti þingmannsins og rakti þekkt atriði úr ferli hans; kjördæmapot, félagsaðild hans að Ku Klux Klan og það hversu umdeildur hann hefði ávallt verið vegna skoðana sinna á minnihlutahópum.

Fyrir tilviljun gleymdi Ríkisútvarpið alveg að taka fram fyrir hvaða flokk hann hefði setið í öldungadeildinni. Það var líklega eins gott, því ekki hefði það farið vel ofan í staðalmyndafulla íslenska krata að heyra að Byrd var auk þess sem talið hafði verið upp, lykilþingmaður demókrata um áratugaskeið.