S umarhefti tímaritsins Þjóðmála er komið út og er komið til sölu í Bóksölu Andríkis. Það er sem fyrr fleytifullt af efni sem flestir áhugamenn um íslensk stjórnmál og þjóðfélagsumræðu ættu að vilja kynna sér.
Björn Jón Bragason sagnfræðingur skrifar fróðlega grein um aðdraganda falls fjárfestingarbankans Straums-Burðaráss og kemur þar fjölmargt fram sem ekki hefur áður verið á almanna vitorði. Sá banki féll mörgum mánuðum eftir hrun viðskiptabankana haustið 2008 og tími og svigrúm til aðgerða allt annað en þá var. En þótt greinin sé fróðleg, þá er ekki síður fróðleg viðbótargrein hans, sem fjallar um þá þrautagöngu sem hann gekk til að reyna að afla upplýsinga um málið, en nær allar opinberar dyr urðu honum þá lokaðar, þrátt fyrir að ráðamenn tali sífellt um „meira gagnsæi“ og opið þjóðfélag. Fróðlegt verður hvort aðrir fjölmiðlar munu hafa áhuga á frásögnum hans af tilraunum ráðamanna til að leggja steina í götu hans við rannsóknina.
Örvar Arnarson skrifar um bóluna sem hann kennir við Kyoto. Í upphafi hennar segir hann þá sögu af sjálfum sér, að í viðskiptafræðinámi hans við Háskólann í Reykjavík hafi verið fjallað um „netbóluna“. Mikið hafi honum þótt allir hafa verið vitlausir á tíma netbólunnar, „ausandi peningum í tölvunörda með fáránlegar hugmyndir“. Að loknu námi hafi hann farið að vinna hjá Glitni, en þar hafi honum sjálfum alveg sést yfir hættuna af skuldabréfavafningum og ódýru opinberu lánsfé um allan heim. Nú sé svo ekki öruggt að koma megi í veg fyrir næstu bólu, því helstu stjórnmálaöfl heimsins hafi nú tekið að setja saman „skelfilegt regluverk („Cap and Trade“) sem kyndir upp í næstu bólu; illa lyktandi Kyoto-mengunarbólu.“ Sú bóla snýst um kaup á mengunarkvótum, og munu þar gríðarleg auðæfi verða sköpuð með pennastriki en ekki raunverulegri verðmætaaukningu.
Margt fleira mætti nefna af fjölbreyttu Þjóðmála-efni. Ritstjórapistlar Jakobs F. Ásgeirssonar eru iðulega mjög þarfar og beittar pólitískar hugleiðingar. Björn Bjarnason fjallar um stjórnmálaviðhorfið og Jón Ríkharðsson sjómaður fjallar um tvær þjóðir; íslensku þjóðina og svo minnihlutahóp sem alltaf kallar sig „þjóðina“. Atli Harðarson fjallar um Karl Popper og er greinin fróðleg eins og annað sem frá Atla kemur. Vilhjálmur Eyþórsson tekur vinstrimenn til bæna og Þorsteinn Pálsson skrifar um nýja bók Styrmis Gunnarssonar um rannsóknarskýrslu Alþingis, og setur sjálfur fram áhugaverð sjónarmið um störf nefndarmanna og er víða harðorður.
Og er þá ógetið megingreinar Þjóðmála að þessu sinni. Þjóðmál birta í heild andmæli Davíðs Oddssonar við því sem höfundar rannsóknarskýrslu Alþingis höfðu til athugunar um álitamál er sneru að Seðlabanka Íslands, og er óhætt að segja að þeir, sem ætla sér að hafa einhverja skoðun á starfi og niðurstöðum nefndarinnar, þurfi að kynna sér andmælin. Þá þykir eflaust mörgum fróðlegt að bera andmælin saman við frásagnir fjölmiðla af efni skýrslunnar og þögn þeirra flestra um efni þeirra andmæla sem Davíð og ellefu aðrir einstaklingar settu fram við skýrsluhöfunda.
Eins og áður segir fást Þjóðmál í Bóksölu Andríkis bæði stök hefti í lausasölu sem og áskrift að tímaritinu. Ársáskrift kostar aðeins 4500 krónur.