N okkrir Evrópusambandsaðdáendur innan Sjálfstæðisflokksins höguðu sér mjög einkennilega fyrir og á landsfundi flokksins nú um helgina. Vikuna fyrir fundinn létu þeir andstæðinga flokksins á Eyjunni og Fréttablaðinu narra sig út í alls kyns hugleiðingar um að flokkurinn myndi klofna ef hann tæki ekki u-beygju í stefnu sinni gagnvart aðild Íslands að ofurríkinu. Því verður vart trúað að aðdáendurnir hafi átt frumkvæði að slíkum hótunum gagnvart félögum sínum. Nóg er nú samt að þeir hafi látið andstæðinga flokksins bjóða sér upp á þann dans.
Þessar hótanir styrktu auðvitað ekki málstað aðdáendaklúbbsins á fundinum sjálfum. Efast má um að nokkur sem starfar í stjórnmálaflokki sé sammála öllu sem flokkurinn stefnir að eða tekur sér fyrir hendur. Flestir gera sér grein fyrir að starf í stjórnmálaflokki snýst um að sameinast um helstu markmið en svo greinir menn auðvitað á um leiðir að þeim markmiðum. ESB aðdáendur telja án efa að aðild Íslands að sambandinu myndi færa Íslendinga nær grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Því mati þeirra eru hins vegar flestir stuðningsmenn flokksins ósammála eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum og líkt og kristallaðist í niðurstöðu landsfundarins.
Fyrir fundinum lágu drög að ályktun um ESB þar sem flokkurinn óskaði eftir að viðræður við sambandið yrði lagðar til hliðar að sinni á meðan önnur brýnni mál væru til úrlausnar. Það var augljóslega tilraun til að koma að einhverju leyti til móts við ESB aðdáendur, orðalagið gaf því undir fótinn að við aðrar aðstæður síðar yrðu viðræður kannaðar að nýju. Ef þeir hefðu verið raunsæir hefðu þeir tekið þessu kostaboði. En því var ekki að heilsa. Ef marka má skrif um gang fundarins vildi þessi litli minnihluti fá allt eða ekkert. Forystumenn flokksins fóru í vonlitla „vegferð“ til að koma til móts við hann með meira orðskrúði en allt kom fyrir ekki. Landsfundarfulltrúum var þá nóg boðið af hótunum, þæfingi og móðurmálsæfingum og samþykktu án málalenginga að draga ætti aðildarumsóknina til baka og Íslandi væri best borgið utan ESB. Og það var gert með mjög afgerandi hætti í atkvæðagreiðslu.
It ain’t over ‘til the fat lady sings. Um leið og fundi lauk hófu ESB aðdáendur að vega að félögum sínum. Guðbjörn Guðbjörnsson skýrði heimsbyggðinni frá því að hann hefði sagt sig úr flokknum því flokkurinn vildi ekki kúvenda og fara að óskum hans. Benedikt Jóhannesson formaður aðdáendaklúbbsins sendi klúbbfélögum bréf og sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa útilokað stjórnarsamstarf við aðra flokka en vinstri græna. Benedikt hefur þá ekki kynnt sér hvernig atkvæði lágu í atkvæðagreiðslu á alþingi um málið í fyrra. Hið rétta er auðvitað að með þessari ályktun aukast mjög líkur á því að vinstri stjórnin hrökklist frá völdum. Nú liggur það alveg skýrt fyrir að Samfylkingin á ekki í önnur hús að venda í ESB málum sýni vinstri grænir stefnu sinni trúmennsku. Benedikt sagðist sömuleiðis leiður yfir því að ekki tókst að „samþjappa“ flokksmönnum um eitthvað annað en þá stefnu sem mikill meirihluti þeirra valdi.
Ef stjórnmálasaga Ragnheiðar Ríkharðsdóttur væri ekki þekkt kæmi kannski á óvart það sem hún hefur látið hafa eftir sér að fundi loknum. Hún hefur gefið í skyn að landsfundur hafi farið með ofríki gagnvart ESB aðdáendum og að flokkurinn rúmi ekki meira en eina skoðun. Hvaða rugl er þetta? Flokkar rúma auðveldlega margar skoðanir eins og landsfundurinn var einmitt gott dæmi um þar sem tekist var hressilega á um ýmis mál. Það er hins vegar ekki gott að flokkar hafi sjálfir fleiri en eina stefnu. Þá standa þeir vart undir því að kallast stjórnmálaflokkar. Það er hlutverk þeirra sem starfa innan þeirra að marka flokkum stefnu og það getur auðvitað aldrei orðið þannig að allir flokksmenn verði fullkomlega sáttir við einstök atriði hennar. Yfirleitt er það þannig að meirihlutinn ræður för og á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var það mikill meirihluti sem lagði línurnar í Evrópusambandsmálum.
Vefþjóðviljinn hefur fylgst ágætlega með starfi Sjálfstæðisflokksins um árabil. Hann man ekki eftir annarri eins óbilgirni og ESB-aðdáendur hafa sýnt undanfarna viku. Eru þó ýmis mál sem tekist hefur verið á um af hörku innan flokksins á undanförnum áratugum, líkt og fiskveiðistjórnunin.
Þessi hegðun verður þeim mun furðulegri þegar það er haft í huga að vinstri stjórnin er að hrinda þessu lífsins máli fólksins í framkvæmd.