Laugardagur 26. júní 2010

177. tbl. 14. árg.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag var gerð tilraun til að marka flokknum „jafnréttisstefnu“ að hætti vinstri flokkanna. Í drögum að ályktun fólst viðurkenning á öllum helstu meinlokum vinstri manna um jafnréttismál eða öllu heldur kynjajafnréttismál, femínisma. Það eina sem vantaði var að segja það hreint út að menn vildu kynjakvóta. Í stað þess var farið eins og köttur í kringum heitan graut með greinum eins og þessari:

Það er markmið Sjálfstæðisflokksins að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast á öllum framboðslistum flokksins, sérstaklega í efstu sætum framboðslista. Halli á annað kynið í tilteknum verkefnum, nefndum eða ráðum í innra starfi flokksins, skal fyrirsvarsmaður viðkomandi verkefnis, nefndar eða ráðs leita úrbóta þar á.

Hér er ekki aðeins á ferðinni tilræði við þá stefnu að einstaklingar skuli njóta sín í starfi flokksins óháð kynferði heldur verður vart séð að sérstök kvenfélög gætu starfað innan flokksins yrði þessari forsjárhyggju beitt innan hans.

Í greinargerð með femínismanum er meðal annars sagt að fæðingarorlofslögin hafi verið mikil bót og framför í jafnréttismálum. Fá lög hafa þó kostað skattgreiðendur meira á síðustu áratugum. Lögin voru ein af stóru mistökunum sem gerð voru í ríkisfjármálum á síðustu 10 árum. Þetta er einfaldlega eitt af þeim málum sem Íslendingar hafa ekki efni á og fjármagna nú með erlendum lántökum. Komandi kynslóðir eru veðsettar fyrir þetta ævintýri. Að kenna þessi lög við jafnrétti er svo hámark ósvífninnar. Eftir að lögin voru sett tóku bankastjórar og fleiri sem eignuðust börn milljónir á mánuði út úr Tryggingastofnun sem „fæðingarorlof“ á meðan heimavinnandi fengu um 40 þúsund á mánuði. Heimavinnandi, námsmenn og atvinnulausir voru hafðir að háði og spotti með þessum lögum á meðan hátekjufólk makaði krókinn. Önnur eins ójafnréttislög hafa ekki verið sett á Vesturlöndum um áratuga skeið.

Þrátt fyrir að þessi tilraun til að gelda einstaklingsfrelsið innan Sjálfstæðisflokksins hafi komið frá nefnd sem miðstjórn flokksins skipaði til þess arna var henni að mestu hrundið á fundinum.