Föstudagur 25. júní 2010

176. tbl. 14. árg.
  • Segjum sem svo að tveir menn semji um að skipta á húseignum. Annar láti lítið einbýlishús en eigi að fá í staðinn raðhús hins, mánuði síðar. Þegar sá á að afhenda raðhúsið finni hann hins vegar út, að með hártogunum og skapandi lestri á greinargerðum með lagafrumvörpum megi skilja lög þannig að ekki sé heimilt að nota raðhús í makaskiptum. Hann neitar að uppfylla samninginn og Hæstiréttur fellst á lögskýringar hans, ekki sé heimilt að láta raðhús ganga upp í aðra fasteign í viðskiptum.
    Ætli nokkrum manni í veröldinni dytti í hug að samningur þessara manna stæði „óbreyttur um allt annað en það sem var dæmt ólöglegt“? Að annar eigi að afhenda einbýlishúsið en fengi ekki raðhúsið í staðinn?
    Jú, til er hópur fólks sem myndi halda þetta. Það er sami hópurinn og heldur að gengisbundin lán standi óbreytt að öllu öðru leyti en því að gengistengingarnar hverfi. Sumir í þessum hópi telja í fullri alvöru að þeir eigi að fá fjörutíu ára óverðtryggt húsnæðislán á 3% vöxtum, af því að „önnur atriði“ í lánasamningi þeirra hafi verið „dæmd ólögleg“.
     
  • Hundruð lögfræðinga höfðu skoðað myntkörfulánasamningana. Fólk slóst um að fá að taka gengistryggð lán og taldi sig órétti beitt ef það fékk ekki eins há lán og það vildi. Menn borguðu af lánunum árum saman. Ef vanskil urðu, þá var höfðað mál til innheimtu skuldanna og dómstólar samþykktu þær kröfur athugasemdalaust. Lánin voru iðulega í fréttum, þar sem rætt var fram og til baka hvort þau væru hagstæð eða of mikil áhætta. Lögfræðingum, lagaprófessorum ótal háskóla, fræðimönnum í fjármunarétti, stjórnvöldum, fjármálaeftirlitinu, þingmönnum, viðskiptaráðuneytinu, öllum á markaði var kunnugt um þau. Engum datt í hug að ekki væri heimilt að semja með þessum hætti. Eftir áralöng viðskipti, þar sem tugþúsundir einstaklinga, auk fyrirtækja sem sjálf höfðu auðvitað sérfræðinga á sínum snærum, höfðu tekið slík lán, þá er skyndilega fundið út, ekki síst með greinargerðartúlkunum fremur en ákvæðum laganna sjálfra, að þessi viðskipti þúsundanna hafi aldrei verið heimil. Stóryrðamenn fylla fjölmiðlana og telja lántakendur hafa verið beitta miklum órétti. Fréttamenn velta fyrir sér hvernig hundruðum lögfræðinga hafi getað sést yfir að lánin „voru ólögleg“. Enginn virðist velta fyrir sér þeim möguleika að hæstaréttardómararnir hafi einfaldlega haft rangt fyrir sér. Nú eru þeir skyndilega orðnir óskeikulir og þeir, sem ekkert sáu að lánunum sem þúsundir tóku, eru sakaðir um mikil afglöp. „Hvernig gat þetta gerst?“ spyr hver fréttamaðurinn á fætur öðrum. Ætli hæstaréttardómararnir þyki jafn óskeikulir næst þegar þeir dæma í kynferðisbrotamáli?
     
  • Ef dómur Hæstaréttar er réttur, þá hefði ósvífinn maður getað gengið inn í banka og tekið tugmilljóna lán á litlum vöxtum en með gengisbindingu. Viku seinna hefði maðurinn svo getað neitað að greiða fyrsta gíróseðilinn og sagt gengisbindinguna ólöglega. Þingmenn og lántakendur myndu æpa að maðurinn ætti að fá að halda láninu og borga aðeins lágu vextina. Allt annað væri „óréttlæti“.
     
  • Þeir sem nú virðast telja eðlilegt að þeir fái að halda fjörutíu ára láni, á óbreyttum smávöxtum, en án gengisbindingar, ætli einhver í þeim hópi hafi einhvern tíma verið reiður yfir „græðgisvæðingu samfélagsins“?
     
  • Auðvitað er skiljanlegt að margir, sem horfðu fram á fjárhagslegt afhroð vegna þeirra lánasamninga sem þeir höfðu gert, fagni dómi Hæstaréttar og telji hann mikið réttlæti. Enginn láir fólki að vilja frekar halda sínu en missa allt sitt, og enginn sem ætlast til þess af fólkinu, að „réttlætiskennd“ þess segi því ekki einmitt að það megi losna við óhagstæðu samningsákvæðin – en halda hinum. Það er skiljanlegt að þetta fólk vilji nú verja hið óvænta happ sitt með kjafti og klóm. Aðrir verða hins vegar krafðir um meira raunsæi í viðbrögðum.
     
  • Gaman verður þegar menn átta sig á því, hversu mjög lán hinna elskuðu „útrásarvíkinga“ breytast vegna dóms Hæstaréttar.