S jálfstæðisflokkurinn virðist sækja í sig veðrið á ógnarhraða þessar mínúturnar. Nú þegar styttist í landsfund flokksins þá eignast flokkurinn skyndilega ótal velvildarmenn sem nú ráðleggja flokksmönnum af einskærum heilindum sínum. Þannig hafa vefsíður, álitsgjafar og sjálft Fréttablað Evrópusambandsins sett fram áhyggjur sínar af því að sjálfstæðismönnum verði það á að samþykkja á landsfundi stuðning við tillögu um afturköllun Evrópusambandsaðildar. Það gæti orðið slæmt fyrir flokkinn, segja þessir ágætu velvildarmenn hans, sem hugsa auðvitað fyrst og fremst um hag Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur árum saman verði andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu, eins og engum þarf að koma á óvart. Það er fullkomlega í anda Sjálfstæðisflokksins og áratuga baráttu hans að samþykkja að inngöngubeiðni vinstristjórnarinnar í Evrópusambandið verði afturkölluð.
Það væri hins vegar í samræmi við hræðslu og sífellda eftirgjöf flokksins á síðustu árum, sem sumir kalla Samfylkingarvæðingu hans, ef hann léti andstæðinga sína og aðra áróðursmenn á þeim kanti stjórna því hvað landsfundur segir.
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun styður yfirgnæfandi meirihluti landsmanna þá tillögu að inngöngubeiðnin í Evrópusambandið verði afturkölluð, og skyldi engan undra.
Ótal kannanir sýna yfirgnæfandi andstöðu landsmanna við inngöngu í Evrópusambandið.
En sjálfstæðismenn þurfa ekki réttlætingu í skoðanakönnunum til að segja hug sinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt viljað standa vörð um fullveldi landsins og lætur varla hræða sig frá henni.
Ef að andstæðingar flokksins héldu í raun og veru að það yrði flokknum hættulegt að árétta þá skoðun sína, að standa skuli vörð um fullveldi landsins, skoðun sem kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna deilir með flokknum, þá myndu andstæðingar hans ekki vara flokkinn við. Þá myndu þeir einmitt vona að flokknum „yrði það á“ að gera slík „mistök“.
Undanfarin ár tóku margir sjálfstæðismenn óskaplega mikið mark á andstæðingum flokksins og þorðu vart að standa við grundvallaratriði í eigin stefnu. Afleiðingar þess samfellda undanhalds blasa við. Andstæðingar flokksins hvetja forystu hans mjög til að hlusta helst á andstæðingana og treysta þeim best. Enginn heilvita maður fer eftir slíkum ráðum, enda vita þeir sem er, að þeir sem fara eftir slíkum ráðum standa ótrúlega fljótt uppi stuðningslausir með öllu.