Þ að var með öllu óskiljanlegt að endurreisa Landsbankann haustið 2008. Á því var engin þörf enda bankakerfið alltof stórt. Þá var minna en ekkert eftir af bankanum, útlánasafnið eitt allsherjar fíaskó og smellt hafði verið á nefið nokkur hundruð þúsund einstaklingum í útlöndum þar sem þeir sátu við tölvunar sínar og reyndu að ná í peningana sína af netreikningum bankans. Síðan hefur Evrópusambandið hvað eftir annað notað það mál sem ástæðu til að saka Íslendinga í heild sinni um að standa ekki við skuldbindingar sínar.
Til að reisa þessa ógæfustofnun úr rústunum hefur ríkissjóður Íslands lagt fram 122 milljarða króna sem hlutafé í bankann. Það eru gríðarlegir fjármunir þótt þér séu ef til vill hjóm eitt hjá þeim óbeina skaða sem þessi stofnun hefur valdið. Í miðju efnahagshruni eru teknar 1,5 milljónir króna af hverri fjögurra manna fjölskyldu í landinu til að stofna ríkisbanka á rústum Landsbankans. Skattar hækkaðir og lán slegin um allar jarðir til að vekja skaðvaldinn til lífsins.
Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem ríkið kemur hlaupandi með stórfé í Landsbankann í stað þess að láta hann fara þá leið sem illa rekin fyrirtæki fara almennt. Snemma vors 1993 riðaði bankinn til falls undan fiskeldisævintýrum, viðskiptum við Samband íslenskra samvinnufélaga og fleiri byrðum. Ríkið ákvað þá að styrkja eiginfjárstöðu bankans með framlagi úr ríkissjóði, seðlabanka og tryggingarsjóði viðskiptabanka. Fréttirnar af þessu i Morgunblaðinu 17. mars 1993 eru á tveimur opnum og mjög fróðleg upprifjun á því að bankar voru ekki að fara á hliðina í fyrsta sinn á Íslandi haustið 2008..
Hvað ef hæstiréttur heldur áfram að dæma að myntkörfulán og gjaldeyrislán, fjármuni sem teknir voru að láni erlendis í erlendum gjaldmiðli og á erlendum vaxtakjörum hér á landi, hafi verið lán í íslenskum krónum? Hvað ef Landsbankinn þolir þá áraun ekki? Fá þá skattgreiðendur enn einn reikninginn vegna hans?