F lestar fréttir sem berast úr borgarstjórn Reykjavíkur eru furðulegar. Ein sú furðulegasta var að oddviti Sjálfstæðisflokksins lét vinstriflokkana kjósa sig forseta borgarstjórnar.
Það blasir við, að sú ákvörðun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er algerlega misráðin.
Ef núverandi ríkisstjórn ákvæði einn daginn að efna til betra samstarfs við stjórnarandstöðuna og byði Sjálfstæðisflokknum að taka við embætti forseta þingsins, þá yrði Bjarni Benediktsson auðvitað ekki sá forseti. Hann er oddviti Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, fer þar fyrir stjórnarandstöðunni í umræðum og leggur línurnar fyrir hönd síns flokks í samningaviðræðum um stjórn þingsins og framgang mála. Ef embætti þingforseta kæmi í hlut Sjálfstæðisflokksins nú, þá yrði fyrir valinu einhver reyndur þingmaður sem mætti missa úr eldlínunni. Stjórnarandstöðuflokkarnir eiga jafnan fulltrúa í hópi varaforseta Alþingis. Þeim dettur ekki í hug að fórna formönnum sínum eða varaformönnum í þau störf, og er þá ekki gert lítið úr mikilvægi forsetastarfa.
Menn geta verið þeirrar skoðunar að nú eigi allir að vinna að sameiginlegum markmiðum og reyna að vera vinir. Í því ljósi gæti forysta Sjálfstæðisflokksins ef til vill reynt að verja að sjálfstæðismaður tæki að sér að stjórna fundum borgarstjórnar í tíð nýja vinstrimeirihlutans. En að Sjálfstæðisflokkurinn fórni oddvita sínum til þess verks, þeim borgarfulltrúa sem mests stuðnings naut og mikilvægastur hefði verið í öllum umræðum í borgarstjórn, það er ótrúlegt.
Skoðanir manna á því, hvort minnihluti eigi að veita meirihluta aðhald eða ekki, skipta hér litlu máli. Sumir telja að minnihluti eigi ekki að sinna þeirri lýðræðislegu skyldu að veita meirihluta aðhald, að minnihlutinn eigi í raun að svipta kjósendur þeirri stjórnarandstöðu sem þeir eiga rétt á, og er ætlað að setja pressu á valdhafa að standa sig. Sumir telja að stjórnmál snúist ekki um lífsskoðanir eða stefnumál heldur séu eitthvert sameiginlegt verkefni sem eigi að vinna að í hópavinnu við hringborð. Ef svo er nú komið fyrir Sjálfstæðisflokknum, eftir andstreymi síðustu missera, þá gat hann auðvitað þegið boð vinstrimeirihlutans, en hann átti ekki að taka í mál að vinstriflokkarnir veldu fulltrúa hans. Hanna Birna Kristjánsdóttir var allt of dýrmætur og öflugur forystumaður til að taka að sér að vera forseti borgarstjórnar nú þegar nýr vinstrimeirihluti dynur á borgarbúum.