Helgarsprokið 20. júní 2010

171. tbl. 14. árg.

S tjórnmálaflokkur sem þóttist enga stefnu hafa og virtist fara fram á atkvæði með þeim einu rökum að hinir flokkarnir væru enn meiri vitleysingar, fékk sex borgarfulltrúa í kosningunum á dögunum og varð stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur, þótt naumlega væri. Stór hluti kjósenda virðist þessi misserin vera til í að gera næstum hvað sem er með atkvæðið sitt. Áróðursíbyljan sem dunið hefur á fólki undanfarið, um „fjórflokk“ sem sé ómögulegur, og um stjórnkerfi sem sé „ónýtt“, hefur vafalaust haft töluvert að segja. Við áróðursflóðið úr umræðuþáttunum hefur svo bæst alger hræðsla stjórnmálaflokkanna við að verja hendur sínar.

Við þessar aðstæður, þegar þriðji hver kjósandi telur snjalla hugmynd að kjósa „Besta flokkinn“, ákveður ríkisstjórnin að efna til nýrrar kosningar. Nú skal kosið til „stjórnlagaþings“ sem skal sinna ekki ómerkara verkefni en að „endurskoða stjórnarskrána“. Einhver óskiljanleg meinloka Jóhönnu Sigurðardóttur gæti orðið að veruleika, svo óhugnanlegt sem það er.

En hér er ekki aðeins við Jóhönnu Sigurðardóttur að sakast. Hér skiptir miklu máli eitt helsta þjóðfélagsböl undanfarinna missera: Tvístígandi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins.

Svo það sé sagt hreint út: Undanfarin ár hefur nær ekkert gagn verið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þar ríkir nú hræðslan, hikið og sjálfsefinn, en ekki síður reynsluleysi og sannfæringarleysi í bland við hreint áhugaleysi á stundum. Þingmennirnir virðast dauðhræddir um að verið sé að tala illa um þá í andstæðingamiðlunum, að einörð framganga verði voðalega óvinsæl. „Við erum einir í þessu, við verðum að gefast upp, við verðum að semja, það loga alveg bloggheimarnir“, segja þeir hver við annan, í hvert sinn sem máli skiptir að standa sig.

Auðvitað eru á þessu undantekningar. Sjálfstæðisflokkurinn á enn þingmenn sem skilja nauðsyn þess að berjast óhikað gegn vinstriöflunum, gegn þeim þjóðfélagsbreytingum sem vinstrimenn reyna að knýja í gegn með hjálp samherja sinna á fjölmiðlunum og nauðsyn þess að andæfa þeim ranghugmyndum sem stöðugt er nú haldið að fólki.

Þessir þingmenn eru ekki margir. Þá má yfirleitt finna fljótt með því að kanna hvaða þingmenn það eru sem verst orðbragð er haft um á umræðuvefjunum eða álitsgjafarnir telja verstu skrímslin.

Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn næstum því hætt að berjast. Fyrir nokkrum árum var tekin upp sú hertækni að leggja niður vopn og vonast til að vinstrimenn og fjölmiðlamenn yrðu vinir sjálfstæðismanna. Reynt var að friða álitsgjafana, Samfylkingin var tekin í ríkisstjórn og slagsíðu fjölmiðlanna og misnotkun Ríkisútvarpsins var tekið sem sjálfsögðum hlut sem ekki mætti mótmæla. Þegar Samfylkingin krafðist þess að Sjálfstæðisflokkurinn tæki upp Evrópustefnu Samfylkingarinnar þá var efnt til skyndilandsfundar. Sjálfstæðisflokkurinn bregst við samfelldum árásum úr umræðuþáttunum með því að semja við hina flokkana um þak á auglýsingakostnaði, svo flokkurinn geti ekki einu sinni sjálfur borið hönd fyrir höfuð sér í kosningabaráttu. Flokkurinn ákveður að eigin frumkvæði að „endurgreiða“ tugmilljóna styrki frá útrásarfyrirtækjum en nefnir ekki einu orði að Samfylkingin fékk sambærilegar fjárhæðir en endurgreiðir ekki krónu. Flokkurinn bendir ekki einu sinni á gerólíka meðferð fréttamanna á flokkunum, en vikuna fyrir síðustu alþingiskosningar hundeltu fjölmiðlar Sjálfstæðisflokkinn vegna styrkja en hafa engan áhuga á styrkjum annarra flokka. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sannfært sig um að hann verði fyrst og fremst að „sýna auðmýkt“. Álitsgjafarnir höfðu hamrað á því að forysta Sjálfstæðisflokksins væri alltof hörð af sér. Það er langt síðan sú „ásökun“ heyrðist síðast.

Það sem menn hafa sér til málsbóta er að í kratastjórninni 2007 – 2009 varð nafn flokksins að örgustu öfugmælum því hann sýndi hvergi sjálfstæði í samstarfi við Samfylkinguna. Það tekur auðvitað tíma að reisa flokkinn úr þeim rústum en þingmenn flokksins verða að gera betur ef það á að takast á þessu kjörtímabili.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri knattspyrnulandslið í Suður-Afríku myndu forystumenn hans hefja alla blaðamannafundi á að fullvissa fólk um að flokkurinn hefði ekkert á móti lúðrunum sem heimamenn þenja þindarlaust allan leikinn. Einstaka forystumaður myndi sjálfur fá sér lúður.

Stundum virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé hættur í pólitík. Margt af því fólki sem nú er í forystu hans virðist halda að stjórnmál séu félagsmálastarf, svo sem eins og í íþróttahreyfingu, björgunarsveit eða rótarí. Því finnst mestu máli skipta að Alþingi sé „fjölskylduvænn vinnustaður“.

Í borgarstjórn er borgarstjórnarflokkurinn mjög ánægður með „ný vinnubrögð“ sem hann telur sig hafa „innleitt“. Borgarstjórnarflokkurinn telur ekki ástæðu til að draga neina ályktun af þeirri staðreynd að í síðustu viku stóð oddviti flokksins brosandi á skrifstofu sinni og afhenti Jóni Gnarr lyklana að ráðhúsinu, og skellti upp úr af því að Jón er svo fyndinn. Í síðustu kosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimm borgarfulltrúa. Það er sama tala og vinstriflokkarnir fengu árið 1990, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk tíu. Borgarstjórnarflokkurinn er hæstánægður með sig og ætlar að halda áfram á sömu braut.

Á dögunum hætti Sjálfstæðisflokkurinn að berjast gegn stjórnlagaþingi Jóhönnu Sigurðardóttur og gafst svo gersamlega upp að einungis einn þingmaður, Óli Björn Kárason, greiddi atkvæði gegn málinu. Stjórnlagaþingið var hjartans mál Jóhönnu. Hún hefði samið um næstum hvað sem var, til að koma því í gegn. Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað stöðvað málið með því einfaldlega að nýta sér rétt sinn til að tala um það fram og til baka. En það þorði flokkurinn auðvitað ekki, því hann kynni þá að vera sakaður um „málþóf“. Flokkurinn hefði getað farið fram á næstum hvað sem er, í skiptum fyrir að hleypa málinu í gegn. Eitt skilyrði sem blasti við að setja, var að samþykkt yrði tillaga flokksins um rannsóknarnefnd vegna Icesave-framgöngu ríkisstjórnarinnar. Annað hefði verið að tillaga Unnar Brár Konráðsdóttur um afturköllun Evrópusambandsinngöngubeiðni yrði tekin á dagskrá og greidd um hana atkvæði. En Sjálfstæðisflokkurinn gerði auðvitað ekki slíkar kröfur, því það hefði verið of harkalegt. Skilyrði Sjálfstæðisflokksins var að á undan stjórnlagaþinginu yrði efnt til „þjóðfundar“. Ríkisstjórnin samþykkti og hló næstum því úr sér augun. Jóhanna Sigurðardóttir talaði um að „kraftaverk“ hefði gerst.

En hvað á Sjálfstæðisflokkurinn að gera? Á hann að skipta um formann á landsfundinum um næstu helgi? Nei, ekki myndi Vefþjóðviljinn ráðleggja honum það. Það er margt gott um núverandi formann flokksins að segja. En Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fá sjálfstraustið aftur og hann þarf að hætta að hlýða álitsgjöfum vinstrimanna. Vinstrisinnaðir álitsgjafar munu aldrei ráða Sjálfstæðisflokknum heilt. Ef þeir gagnrýna hann fyrir baráttu í þinginu, þá er það til marks um að hún geti borið árangur. Ef þeir teldu í raun að hún væri flokknum skaðleg, þá myndu þeir þegja og vona að hún stæði sem lengst. Álitsgjafar vinstrimanna vilja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lina forystumenn. Ef álitsgjafarnir tala illa um einstaka þingmenn eða aðra forystumenn Sjálfstæðisflokksins, þá eru það meðmæli sem sjálfsagt er að hlusta á.