Fimmtudagur 10. júní 2010

161. tbl. 14. árg.

Á dögunum láðist Vefþjóðviljanum að óska Samfylkingunni til hamingju með tíu ára afmælið. En fyrir rúmum tíu árum  var stofnaður stjórnmálaflokkur hér á landi sem hafði tvö markmið sem voru þó aðeins eitt þegar betur var að gáð. Flokkurinn átti að sameina vinstri menn. Sameiningin átti svo að tryggja að vinstri mönnum meiri áhrif.

Á merkum tímamótum sem þessum er full ástæða til að líta um farinn veg. Hvernig er staðan á vinstri vængnum 10 árum eftir að sameiningin mikla átti sér stað með því að hinar ýmsu kennitölur vinstrimanna, Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Þjóðvaki, Kvennalistinn, Gróska voru lagðar til hliðar?

Á Alþingi er annar stór vinstri flokkur og svo nokkrir þingmenn á hreyfingu sem líklega má staðsetja til vinstri í öllum málum nema því merkilega baráttumáli vinstri manna að telja að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar með því að greiða skuldir annarra. Þetta hefur því ekki alveg tekist þarna í þinginu, að sameina menn einum flokki.

Í borgarstjórn eru nú þrír félagshyggjuflokkar. Sá stærsti þeirra, sem er félagshyggjuflokkur ef marka má nýlega yfirlýsingu formannsins, hefur 6 borgarfulltrúa en það er því miður ekki stóri sameinaði flokkurinn. Hann er með þrjá. Þessu til viðbótar starfar svo annar vinstri flokkur sem hefur einn borgarfulltrúa. Af 10 borgarfulltrúum vinstri manna hafa 7 ekki skilið að vinstri menn voru sameinaðir fyrir áratug.