Miðvikudagur 12. maí 2010

132. tbl. 14. árg.

S kiljanlega fór mikið fyrir fréttunum af handtöku og gæsluvarðhaldi nokkurra helstu forkólfa Kaupþings, enda ótvírætt mikil tíðindi á ferð. En umræðan sem víða fylgdi var einnig áhugaverð. Hún var nefnilega svo dæmigerð fyrir margt í íslenskri þjóðmálaumræðu.

Um íslenska umræðuvefi breiddist fljótt út mikil umræða um handtökurnar, gæsluvarðhaldskröfurnar og gæsluvarðhaldsúrskurðina. Afar margir höfðu miklar skoðanir á þeim málum og hvað gera skyldi. Sennilega er óhætt að segja að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hafi tjáð sig, hafi verið eindregið þeirrar skoðunar að fallast ætti á gæsluvarðhaldskröfurnar og ekki aðrir en glæpamenn og vinir þeirra gætu haft aðra skoðun á því. Þegar fréttist af því að einn hæstaréttardómari hefði skilað sératkvæði í málinu þá stóð ekki á dómum netskrifara um það sératkvæði. En einnig komu nokkrir menn í umræðuna hinu megin frá, og töldu augljóst að dómstólum bæri að hafna kröfunum og ekki væri fótur fyrir neinu hjá saksóknara.

Hvað er áhugavert við umræður eins og þær sem hér var lýst? Það er sú íslenska staðreynd að þær fóru fram.

Vissulega voru handtökur og gæsluvarðhald Kaupþingsstjóranna afar fréttnæm tíðindi. En langflestar fullyrðingarnar um gæsluvarðhaldskröfurnar og úrskurðina voru út í loftið og segja töluverða sögu um fullyrðingagirnina í íslenskri umræðu. Þeir sem fullyrtu gátu nefnilega ekkert vitað um það hvort ástæða var til að fallast á slíka kröfu eða ekki.

Samkvæmt fréttum fór sérstakur saksóknari fram á gæsluvarðhald í ljósi rannsóknarhagsmuna. Fyrir slíku gæsluvarðhaldi eru tvö meginskilyrði sem bæði verða að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi þarf sakborningurinn að vera undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Og í öðru lagi þarf að mega ætla að „að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni“. Gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna er ekki refsing fyrir brot. Maður getur verið sekari en allt sem sekt er, en samt ekki verið heimilt að úrskurða hann í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Ef að rannsókn er komin svo langt á veg að sakborningurinn getur ekki lengur hindrað hana á neinn hátt þótt hann gangi laus, þá er ekki hægt að úrskurða hann í slíkt gæsluvarðhald. Þeir sem tjáðu sig af ákefð í umræðunni, með eða móti gæsluvarðhaldi – eða með eða móti sératkvæði sem þeir höfðu ekki lesið – þeir höfðu engin gögn í málinu.

Niðurstaðan um það hvort úrskurða eigi mann í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna ræðst af kröfu saksóknarans, af vörnum sakborningsins og svo gögnum málsins. Það þarf að skoða hvað er verið að rannsaka, hversu langt rannsóknin er komin, hverja á eftir að yfirheyra, hvort lögreglan sé komin með öll gögn eða hvort enn eigi eftir að afla gagna, sem hinn grunaði geti þá spillt ef hann gengur laus, og svo framvegis. Eftir þessu ræðst hvort skilyrði gæsluvarðhalds vegna rannsóknarhagsmuna eru uppfyllt. Þar skiptir engu máli hvort menn eru á móti sakborningnum eða hvort þeir eru vinir hans. Þeir, sem tjáðu sig hávært um gæsluvarðhaldskröfuna eða þá úrskurði sem kveðnir voru upp, höfðu ekkert af þessu í höndunum. Enginn þeirra hafði séð rökstuðning saksóknara, enginn þeirra hafði heyrt hvaða varnir sakborningar færðu fram og enginn þeirra hafði séð gögn málsins. En samt tjáðu þeir sig með stórum orðum. Það er ekki sérstök nýlunda í þjóðmálaumræðunni.