Þriðjudagur 11. maí 2010

131. tbl. 14. árg.

Í gær baðst fréttastofa Stöðvar 2 svo rækilega afsökunar á fréttaflutningi sínum frá því í júlí á síðasta ári að annað eins hefur varst sést í seinni tíð. Fréttastofan viðurkennir að hafa ekki haft nein gögn í höndum er studdu frásögn heimildarmanns. Í yfirlýsingu fréttastofunnar segir meðal annars:

Fréttastofan byggði fréttaflutninginn á frásögn heimildarmanns, en hafði ekki nein gögn undir höndum er studdu frásögn hans. Fréttastofan telur við nánari skoðun að heimildir fyrir fréttinni hafi verið ófullnægjandi og rangar og var frétt fréttastofu Stöðvar 2 af málinu því röng. Vinnulag fréttastofu var ekki í samræmi við siðareglur 365 miðla um mat heimilda og rétt aðila umfjöllunarefnis til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir starfshættir hafa verið endurskoðaðir til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Fréttastofa Stöðvar 2 dregur fréttina til baka og biðst velvirðingar á þeim skaða sem hún kann að hafa valdið hlutaðeigandi.

Efnislega var fréttin um að nokkrir menn hefðu komið miklum fjármunum undan á hundrað reikninga í ýmsum skattaparadísum á sama tíma rétt áður en bankarnir hrundu.

Ekki stóð á viðbrögðum bloggstóðsins kvöldið sem fréttin birtist 27. júlí 2009. Allt var látið gossa í bloggbleyjuna. Hótanir um eignaspjöll og limlestingar birtust fram eftir nóttu og eitthvert stórmennið tók sig til og birti heimilisföng þeirra sem þvælufrétt Stöðvar 2 fjallaði um. Svona ef einhver bloggarinn væri búinn að drekka í sig kjark.

Enginn þessara bloggara mun nokkru sinni biðjast velvirðingar á því sem hann sagði þarna. Þeir munu jafnvel ekki læra af þessu eins og sjá má á Eyjunni í dag sem aðra daga