E kki hafa nú meinlokur þjóðfélagsins minnkað við útkomu álitsgerðar hinna þriggja óskeikulu, Páls, Tryggva og Sigríðar. Sumir eru svo vonsviknir yfir því að geta ekki klínt ábyrgðinni af bankahruninu á rétta menn, að þeir seilast nú í allar áttir í von um að koma ábyrgð á réttan stað.
„Allir vissu hverjir voru helstu eigendur bankanna og hver viðskiptasaga þeirra var, eða „reynsla þeirra af bankarekstri“ eins og það er kallað nú. Engu að síður hafði hinn almenni viðskiptamaður mikinn áhuga á að skipta við bankana, eiga hlut í þeim og trúa þeim fyrir sparnaði sínum, ár eftir ár. Stærstu bankar heims, með alla sína sérfræðinga, lánuðu þeim íslensku jafnvirði þúsundir milljarða króna. Svo komust bankarnir í þrot, eftir sambland af afleitri stjórnun þeirra, svo ekki sé meira sagt, og afar óheppilegum ytri aðstæðum, og þá verður skyndilega einkavæðingin alveg ómöguleg.“ |
Eitt sem reynt er að þyrla sem mestu moldviðri um, er einkavæðing bankanna, það er að segja þeirra tveggja sem voru einkavæddir í upphafi aldarinnar en ekki þeirra tveggja sem voru einkavæddir í fyrra og enginn veit hver eignaðist og öllum virðist sama um.
Reynt er að þyrla upp eins miklu spillingarmoldviðri yfir einkavæðinguna, í trausti þess að á endanum muni margir sannfærast um að hún hafi verið tóm svívirða, þó fæstir muni vita af hverju nákvæmlega.
Eitt af því sem kvartað er yfir, er að bankarnir hafi ekki verið seldir í „dreifðri eignaraðild“. Að vísu vildu stjórnvöld það fyrst, einkum þáverandi forsætisráðherra, en sú hugmynd fékk lítinn stuðning. Og ekki síst fékk hún lítinn stuðning frá hinum almenna borgara, en tugþúsundum saman sýndu þeir þann vilja sinn í verki að í bönkunum yrðu stórir eigendur. Þegar bankarnir voru fyrst boðnir til sölu í hluta skráðu tugþúsundir manna sig fyrir hlutafé. En drjúgur hluti þessa fólks átti bréf sín varla í sekúndu, því samhliða því sem menn skráðu sig fyrir hlutafé framseldu menn hlut sinn til einhverra þeirra fyrirtækja sem þá kepptust við að bjóða sem hæst verð fyrir framseld bréf. Þeir sem þannig urðu kjölfesta svonefnds S-hóps, fengu þannig stóran hlut í Búnaðarbankanum, með framsali tugþúsunda landsmanna á hlut sínum, og aðrir sem síðar urðu stórir fengu einnig sinn skerf.
Einhverra hluta vegna er aldrei minnst á þetta, þegar rætt er um einkavæðingu bankanna. Tugþúsundir landsmanna sýndu hug sinn í verki með afgerandi hætti. Auðvitað hefur þetta haft áhrif á menn þegar ákvörðun hefur verið tekin um það, hvernig standa skyldi að sölu síðustu bréfa ríkisins í bönkunum.
Eftir að bankarnir voru einkavæddir voru þeir á opnum hlutabréfamarkaði í mörg ár. Bréfin hækkuðu í verði með ævintýralegum hætti ár eftir ár. Enginn var neyddur til að eiga hlut í bönkunum og enginn neyddur til að skipta við þá. Allir vissu hverjir voru helstu eigendur bankanna og hver viðskiptasaga þeirra var, eða „reynsla þeirra af bankarekstri“ eins og það er kallað nú. Engu að síður hafði hinn almenni viðskiptamaður mikinn áhuga á að skipta við bankana, eiga hlut í þeim og trúa þeim fyrir sparnaði sínum, ár eftir ár. Stærstu bankar heims, með alla sína sérfræðinga, lánuðu þeim íslensku jafnvirði þúsundir milljarða króna. Svo komust bankarnir í þrot, eftir sambland af afleitri stjórnun þeirra, svo ekki sé meira sagt, og afar óheppilegum ytri aðstæðum, og þá verður skyndilega einkavæðingin alveg ómöguleg. Rangir menn keyptu, á röngum tíma á röngu verði. Og þessi árans Davíð, hann vildi auðvitað að rangir menn keyptu, þó hann hafi að vísu ekki sagt aukatekið orð í þá veru þegar verið var að selja bankana. Valgerður skynjaði hins vegar andrúmsloft og það var nóg. Voru þetta ekki „einkavinir“ hans, þó þeirrar einkavináttu hafi raunar hvergi verið getið áður, en oft upp á síðkastið í bloggum og ekki síður í athugasemdum við blogg, sem eru einhver furðulegasta bókmenntagrein síðari áratuga.
Ef menn eiga nú að trúa því að hinn ofboðslegi áhugi álitsgjafa og fréttamanna á einkavæðingunni gömlu, sem ríkisendurskoðun fór yfir á sínum tíma, væri eðlilegur og ætti sér virðingarverðar ástæður, hvernig í ósköpunum á þá að skýra samfellt áhugaleysi þeirra sömu á einkavæðingunni sem fram fór á síðasta ári? Í fyrra lá nú aldeilis fyrir, ef miðað er við opinbera umræðu, hversu miklu máli skipti hverjir ættu banka og hverjir ekki, en þá ber svo við að fréttamenn reyna ekkert til að grafast fyrir um hverjir eigendurnir eru og sleppa ráðherrum algerlega við yfirheyrslur um það hverjum þeir hafi afhent bankana.
En hvaða dag var það sem Valgerður vissi þetta eða hitt árið 2002. Það þarf að ræða það dag eftir dag. Íslensk fjölmiðlun breytist lítið.