Mánudagur 19. apríl 2010

109. tbl. 14. árg.

E ins og Vefþjóðviljinn minntist á um helgina fullyrti Fréttablaðið fyrirvaralaust í fyrirsögn að Björgvin G. Sigurðsson hefði sýnt af sér vanrækslu sem viðskiptaráðherra. Álitsgjafar og fréttamenn hafa, allt frá þeirri mínútu hún var birt, reynt að vefja skýrslu þremenninganna í rannsóknarnefndinni slíkri helgi, að helst verður jafnað við það gagnrýnisleysi sem sumir fjölmiðlar og álitsgjafar sýndu bönkum og öðrum útrásarfyrirtækjum fyrir hrun.

Björgvin G. Sigurðsson, sem Fréttablaðið hikar ekki við að fullyrða að hafi sýnt af sér vanrækslu, skilaði andmælum til rannsóknarnefndarmanna. Þau andmæli teljast hluti af skýrslu nefndarinnar, þó þau séu ekki í prentuðu útgáfunni, af einhverjum undarlegum ástæðum. Þeir fjölmiðlar, sem fullyrða hiklaust að Björgvin hafi sýnt af sér vanrækslu, hafa þeir einhvern tíma kynnt þau sjónarmið sem hann setur fram í andmælum sínum?

Og aðrir sem fjölmiðlamenn hamra á að hafi sýnt af sér einhverja vanrækslu. Hafa fjölmiðlar séð ástæðu til að kynna almenningi andmæli þeirra? Eða má ekkert segja eða gera sem gæti spillt helgimyndinni sem reynt er að draga upp af nefndarmönnum?

Þeir, sem segja oft á dag að skýrslan sé alveg eins og þeir vildu hafa hana, hversu margir af þeim ætli hafi látið svo lítið að kynna sér andmæli fólks við því sem þremenningarnir halda fram?

Þ orgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á laugardaginn. Hver á þá að tala fyrir málstað þeirra sem sitja hjá í atkvæðagreiðslum um Icesave og ESB?

Þorgerður Katrín tekur sér hins vegar tímabundið leyfi frá þingmennsku. Við hvaða tækifæri ætlar hún að koma aftur til þingstarfa? Hún er ekki sökuð um að hafa brotið lög og hin heilaga rannsóknarnefnd telur hana ekki seka um vanrækslu svo vart á hún landsdóm yfir höfði sér.

Hvarflar ekki að fjölmiðlum að spyrja Þorgerði hvað þurfi að gerast til að hún komi úr tímabundna leyfinu?

Í síðustu viku birti Morgunblaðið minningargrein Svavars Gestssonar um Jón Böðvarsson. Þar segir:

Hann studdi Sósíalistaflokkinn og Alþýðubandalagið og seinna Vinstri græna. Þó kaus hann ekki alltaf Alþýðubandalagið; hann lét mig vita að hann hefði kosið flokk mannsins; það gerir frambjóðandinn hjá ykkur, sjáðu. Og ég sá.

Einn íslenskur stjórnmálamaður var meðal annars kunnur fyrir að nota minningargreinar til að koma höggi á lifandi andstæðinga. Sá átti þetta inni hjá Svavari.