Helgarsprokið 4. apríl 2010

94. tbl. 14. árg.
Icesave-málið hefur vakið mikla athygli á Íslandi erlendis, en við verðum ekki vör við að það hafi neikvæð áhrif á ímynd landsins eða sölu hjá okkur. Holland er nýtt markaðssvæði hjá okkur og í vetur munu um 15 verslanir þar í landi selja vörur frá okkur. Umboðsmenn okkar þar segjast alls ekki verða varir við að Hollendingar séu mjög neikvæðir í okkar garð.
– Halldór Gunnar Eyjólfsson, forstjóri 66°Norður í viðtali við Morgunblaðið 29. mars 2010 í tilefni 50% söluaukningar erlendis frá fyrra ári.

S tór hluti af því áfalli sem margir Íslendingar urðu fyrir haustið 2008 var skyndileg sannfæring þeirra um að Ísland hefði fallið með óbætanlegum hætti í áliti erlendis. Margir fengu án efa á tilfinninguna að þeim yrði aldrei vært utan landssteinanna án þess að þurfa að sitja undir háðsglósum um gjaldþrota land sitt og fingralanga íslenska fjármálamenn. Enn fleiri héldu sennilega að Íslendingar myndu eiga erfitt með að stunda viðskipti og jafnvel nám í öðrum löndum um áratuga skeið. Svo mikill var þessi ótti um glatað orðspor að litlu mátti muna að ríkisstjórn Íslands (!) tækist að hneppa sakbitna þjóðina í skuldaánauð vegna skulda eins einkabankans við sparifjáreigendur erlendis.

„Megin ástæða þess að áföll eins og íslenska bankahrunið valda ekki mjög víðtæku tjóni á viðskiptasamböndum annarra íslenskra fyrirtækja og einstaklinga er að fæstir markaðir eru mjög miðstýrðir. Þeir eru með öðrum orðum frjálsir. Það er enginn sem tekur miðstýrða ákvörðun um að Íslendingar séu allir óalandi og óferjandi og ekki treystandi í viðskiptum. Ákvörðun um viðskipti er ekki tekin á einum stað heldur meðal milljóna neytenda og fyrirtækja.“

Þetta reyndist fullkomlega ástæðulaus ótti.

Hann var jafn mikil fjarstæða og sú tilfinning á árunum fyrir bankahrunið að heimsbyggðin fylgdist agndofa með íslenskum útrásarvíkingum leggja undir sig leikfangabúðir og fótboltafélög. Það gerði hún alls ekki þótt skuldsettar yfirtökur íslenskra fyrirtækja á fyrirtækjum erlendis væru stundum fréttaefni á viðskiptasíðum breskra og skandínavískra viðskiptablaða.

Þjóðremba er svo fljót að breytast í minnimáttarkennd – þaðan sem hún er sprottin.

Megin ástæðan þess að áföll eins og íslenska bankahrunið valda ekki mjög víðtæku tjóni á viðskiptasamböndum annarra íslenskra fyrirtækja og einstaklinga er að fæstir markaðir eru mjög miðstýrðir. Þeir eru með öðrum orðum frjálsir. Það er enginn sem tekur miðstýrða ákvörðun um að Íslendingar séu allir óalandi og óferjandi og ekki treystandi í viðskiptum. Ákvörðun um viðskipti er ekki tekin á einum stað heldur meðal milljóna neytenda og fyrirtækja. Þótt viðskipti einstaka aðila fari á versta veg, jafnvel stórra banka, halda viðskipti flestra annarra einstaklinga og fyrirtækja áfram líkt og ekkert hafi í skorist. Það er nefnilega ekki þannig að Gordon Brown og Alistair Darling taki ákvörðun um öll viðskipti milli Breta og Íslendinga þótt þeir hafi haft í hótunum um að taka sér slíkt vald. Ef viðskipti væru svo miðstýrð hefði íslenskri utanríkisverslun vissulega verið vandi á höndum. Á meðan Íslendingar bjóða vörur og þjónustu sem aðrir hafa gagn að munu utanríkisviðskipti halda áfram. Menn sem hafa átt í ánægjulegum viðskiptum með saltfisk eða hugbúnað við íslensk fyrirtæki um árabil láta auðvitað ekki bankahrun hræða sig frá frekari viðskiptum. Á meðan markaðir eru sæmilega frjálsir verða hvorki Íslendingar né aðrar þjóðir settar undir einn hatt í viðskiptum.

Með þessu er ekki verið að gera lítið úr því tjóni sem erlendir aðilar hafa orðið fyrir vegna gjaldþrota íslenskra fjármálafyrirtækja. Það má hins vegar ekki gleyma því stærsti hluti skuldanna sem íslenskir bankar skilja eftir er við erlenda banka sem geta ekki borið fyrir sig fávísi og reynsluleysi í þessum efnum. Það er auðvitað alveg tilefni til að spyrja hver hlutur þessara erlendu banka í að blása upp íslensku eignabóluna sé. Þessir erlendu bankar, sem veðjuðu stórfé á íslensku bankana og viðskiptavini þeirra, fjármögnuðu bæði íslensku eignabóluna og útrásarævintýrin í raun. Einn þessara banka, Deutsche Bank, hefur nú efnt til rannsóknar á því hvað varð um alla peningana sem þeir lánuðu íslensku bönkunum og hvernig stóð á þessu tapi. Öðrum þræði hlýtur sú rannsókn að vera naflaskoðun, innanbúðarrannsókn.

Annað sem gerir það að verkum að Ísland verður í besta falli aukaatriði í hugrenningum fólks um atburði í fjármálum heimsins haustið 2008 er að á sama tíma fóru bankar um víða veröld á hliðina og gripið var til margvíslegra ráðstafana til að halda fjármálakerfi heimsins á floti. Það mun taka skattgreiðendur á Vesturlöndum áratugi að greiða skuldirnar sem stofnað var til í þeirra nafni með þessum „björgunaraðgerðum“. Íslendingar sögðu þó afdráttarlaust nei við frekari slíkum lántökum í nafni skattgreiðenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar frá líður munu menn auðvitað sjá þetta. Þá munu menn líka sjá hve niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar skipti miklu máli í því að vinda ofan að spéhræðslu Íslendinga. En menn munu einnig minnast gossins í Eyjafjallajökli.

Eða eins og þulur fréttastöðvarinnar Foxnews sagði þegar hann kynnti frétt um gosið í Eyjafjallajökli á dögunum:

Þessa stundina eiga sér stað atburðir á Íslandi – sem er staður sem við segjum nær aldrei fréttir frá – en það er góð ástæða til þess núna því þessir atburðir gætu haft háska í fór með sér fyrir allt mannkyn.

Staður sem við segjum nær aldrei frá.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra páska.

„Hann bar vor sár, og lagði á sig vor harmkvæli.“ Altaristafla Silfrastaðakirkju í Skagafjarðarprófastdæmi, eftir Þorstein Guðmundsson frá Hlíð, máluð 1853. Myndin sýnir Jesúm á krossinum, María Guðsmóðir stendur honum til vinstri handar en María Magdalena krýpur. Mynd tekin úr 5. bindi Kirkna Íslands.