Í samræmi við þau lög sem síðasta stjórn vinstri flokkana setti um stjórn fiskveiða árið 1991 hefur Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra úthlutað veiðirétti í makríl eftir veiðireynslu þótt sú reynsla sé ekki mjög löng. Samkvæmt reglugerð um makrílveiðar íslenskra skipa er gert ráð fyrir því að 112.000 tonn af leyfðum 130.000 tonna heildarafla verði ráðstafað til útgerða uppsjávarveiðiskipa sem veitt hafa makrílinn undanfarin ár. Alls munu 18.000 tonn standa öðrum til boða. Undanfarin fjögur ár hefur uppsjávarflotinn veitt 269.226 tonn af makríl eða 99,99% heildaraflans. Samkvæmt nýrri reglugerð verður þetta hlutfall nú rúm 86%.
Einhverjir hafa verið að missa svefn undafarið yfir þessari ráðstöfun ráðherrans undanfarið og dregið fram gauðslitnu orðaleppana sína gjafakvóti, þjóðareign, sægreifi og þar fram eftir götunum. Öfundarkórinn krefst þess að veiðirétturinn verði settur á uppboð eða lagður á hann einhver konar skattur.
Með þessari kröfu fylgir það fyrirheit að allir landsmenn fái „bita af kökunni“ ef ríkið hafi einhver konar tekjur af veiðiréttinum í stað þess að „gefa“ hann. Um þetta má þó segja að ekki sé sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Hver treystir því að þeir 63 þingmenn sem ráðstafa skatttekjum ríkisins verji þeim skynsamlega og í þágu allra landsmanna? Bendir ekki reynslan þvert á móti til að þeir myndu gefa einhverjum hávaðasömum þrýstihópi þessa peninga; hátekjufólki í fæðingarorlofi, áhugamönnum um tónlistarhús eða fótboltastúku, eigendum bréfa í peningamarkaðssjóðum eða jafnvel ósvífnum stjórnmálamönnum í öðrum löndum sem hlupu til að bættu sparifjáreigendum tap á netreikningi Landsbankans?
Og hvað yrði um frumkvæði manna til að finna nýjar leiðir til að nýta nýjar auðlindir ef allt sem lukkaðist væri samstundis sett á uppboð í nafni ríkisins?