Föstudagur 19. mars 2010

78. tbl. 14. árg.

S tjórn BSRB hefur lýst mikilli reiði með að ríkisstjórnin hafi hótað „að grípa inn í kjaradeilu með lagasetningu á löglega boðaðar verkfallsaðgerðir og brjóta þar með á grundvallarréttindum launafólks“.

Ögmundur Jónasson er sem fyrr eindreginn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og skiptir þar engu hvað hún gerir. Hún má alls ekki fara frá völdum, að sögn Ögmundar. Og þess vegna getur hún hegðað sér eins og hún vill. Ríkisstjórnin getur alltaf treyst á Ögmund og þau í kringum hann, hvernig sem hún fer með allt sem þau skiptir raunverulega máli.

Merkilegt að enginn fjölmiðill hafi spurt Ögmund og aðra þingmenn vinstrigrænna hvort þeir styðji hótanir samgönguráðherra Samfylkingarinnar um lagasetningu til að banna löglega boðað verkfall.

En það er svo margt sem fréttamenn spyrja aldrei um. Lítið dæmi. Þjóðaratkvæðagreiðslan á dögunum, hana hélt dómsmálaráðuneytið. Hefur einhver fjölmiðill spurt dómsmálaráðherrann hvort hann hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu sem ráðuneyti hans hélt? Ef ráðherrann hefur ekki kosið, þá mætti spyrja næst hvers vegna hann hafi ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Ef að svarið verður að kosningin hafi verið óþörf, af því að nýtt tilboð liggi fyrir, þá má spyrja ráðherrann hvort hann hafi lagt til í ríkisstjórn að því tilboði verði tekið. Ef að svarið við því verður að tilboðið sé í raun ekki fast í hendi, þá má spyrja aftur hvers vegna ráðherrann hafi ekki kosið.

Ef ráðherrann hefur hins vegar kosið, þá má spyrja hvað ráðherrann hafi kosið. Svarið við því hlyti að vera fróðlegt, annað hvort fyrir landsmenn eða þá samráðherra hans.

En þetta dettur íslenskum fjölmiðlamönnum sennilega ekki í hug.