H inn mikli matsmaður Moody’s spáði því í dag að segi Íslendingar almennt nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni að viku liðinni verði lánshæfi þeirra lækkað niður í svonefndan ruslflokk.
Við þessi tíðindi eiga Íslendingar sjálfsagt að skjálfa á beinunum allir sem einn, fara í hópknús með Stefáni Fúla stækkunarstjóra og segja já í atkvæðagreiðslunni.
Hinn 25. febrúar 2007 var Moody’s einnig á ferð með kristalskúluna og boðaði mikil tíðindi sem sagt var frá í Morgunblaðinu þann dag.
Lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s hefur hækkað lánshæfismat íslensku viðskiptabankanna þriggja, Landsbanka, Glitnis og Kaupþings og fá langtímaskuldbindingar þeirra einkunnina Aaa, sem er hæsta einkunn sem fyrirtækið gefur. Kemur hækkunin til vegna breyttrar aðferðafræði Moody’s við útreikning lánshæfis. Mat Moody’s varðandi skammtímaskuldbindingar bankanna er óbreytt, það er P-1, sem er hæsta einkunn sem gefin er. |
Moody´s taldi snemma árs 2007 að það væru fáir betri geymslustaðir fyrir fé en íslensku bankarnir þrír. Einu og hálfu ári síðar voru þeir allir horfnir.
Morgunblaðið sagði fyrirsögn leiðara daginn eftir að þetta væri „glæsilegur árangur“ hjá íslensku bönkunum og lauk leiðaranum á því að óska bönkunum til hamingju með glæsilegan árangur. Það var nú aldeilis hamingja.