Í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í gær var fenginn til skrafs Huginn Freyr Þorsteinsson aðstoðarmaður Svavars Gestssonar úr Icesave-viðræðunum. Huginn Freyr hafði áður getið sér gott orð sem aðstoðarmaður Þuríðar Backman alþingismanns og starfsmaður á skrifstofu VG. Hann var því sjálfkjörinn í starfið, með alla reynsluna sem þarf í milliríkjasamninga af þessu tagi.
Huginn Freyr lagði á það mikla áherslu að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði komið Icesave-málinu í þann farveg sem það væri nú í. Gefum okkur að það sé rétt. En verður þá ekki að taka með í reikninginn hvernig Bretar misnotuðu stöðu sína sem alþjóðleg fjármálamiðstöð til að taka íslenskar stofnanir og fyrirtæki kverkataki? Gordon Brown lýsti því yfir opinberlega í bankahruninu í byrjun október 2008 að bresk stjórnvöld „myndu frysta eignir íslenskra fyrirtækja hvar sem til þeirra næðist í Bretlandi.“ Íslensk fyrirtæki og stofnanir voru sett á lista bresku krúnunnar yfir hryðjuverkasamtök. Í þessari þumalskrúfu Breta hefði ekki verið undarlegt þótt eitthvað léti undan hér á landi og í raun mesta furða að Alþingi hafi ekki í örvinglan samþykkt ríkisábyrgð á heila klabbinu og beðist velvirðingar á hryðjuverkastarfsemi Íslendinga.
En Alþingi samþykkti aldrei neitt slíkt í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Jafnvel Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur lýst því að hinn 14. nóvember 2008 hafi náðst samkomulag við Breta og Hollendinga um að efnt yrði til viðræðna við þar sem svonefnd Brussel-viðmið skyldu höfð að leiðarljósi:
Hinn 14. nóvember náðu viðræðunefnd Íslands, Hollands, Bretlands og (Þýskalands) undir forystu Frakklands samkomulagi um stuttan texta, Agreed guidelines, sem þýtt var umsamin viðmið. Þetta er diplómatískt samkomulag sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS, féllu frá niðurstöðu gerðardóms sem bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar, með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.“ |
Ríkisstjórnir vinstri grænna og Samfylkingar gengu því að hreinu samningsborði. Við það gengu þær að öllum kröfum Breta og Hollendinga.
Huginn Freyr hélt því einnig fram að Bretar og Hollendingar hefðu tekið á sig mikinn kostnað vegna Icesave-málsins með því að greiða út innistæður umfram 20 þúsund evrur. En þetta bar hvorki þeim né Íslendingum nokkur skylda til að gera. Tryggingasjóðir höfðu aldrei gert ráð fyrir að bæta innstæður umfram 20 þúsund evrur. Þetta gerðu Bretar og Hollendingar því á eigin ábyrgð, rétt eins og þeir bættu innistæður undir 20 þúsund evrum á eigin ábyrgð.
U msjónarmaður þáttarins hafði svo reiknað það út að efstu þrír menn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á laugardaginn hefðu yfir 30 ára reynslu úr borgarstjórn. „Mér telst til að hin þrjú efstu, Hanna Birna, Júlíus Vífill og Kjartan Magnússon hafi setið samanlagt meira en þrjátíu ár í borgarstjórn.“ Kjartan hefur setið þar rúm 10 ár, Júlíus Vífill tæp 8 og Hanna Birna tæp 8 ár. Það gera svona samanlagt 26 ár.
Það er sex árum skemmri tími en Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið á þingi og einu ári styttri tími en Steingrímur J. Sigfússon hefur glatt landsmenn með sprelli sínu á þingi.