Þriðjudagur 26. janúar 2010

26. tbl. 14. árg.

H anna Birna Kristjánsdóttir hlaut um helgina efsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga. Og þá þarf varla að spyrja tveggja augljósra spurninga: Á hvaða umræðuefni minntust fréttamenn aldrei, þegar þeir ræddu prófkjörsúrslitin? Hvaða sérfræðingar voru ekki kallaðir til álits?

Svörin við þessum spurningum blasa við þeim sem hafa fylgst með vinnubrögðum „fréttamanna“ undanfarin ár. Þarna hlýtur kona efsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, og þá má treysta því að í fréttum af úrslitunum verður ekki minnst orði á „stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum“. Hún er aldrei nefnd nema þegar kona nær ekki þeim árangri sem hún vildi. Núna voru „kynjafræðingarnir“ ekki kallaðir í viðtöl, því nú var ekki hægt að slá upp fyrirsögn eins og „bakslag í jafnréttisbaráttunni“.

Enginn segir að efsta sæti Hönnu Birnu sé til marks um að Sjálfstæðisflokkurinn treysti konum. Enginn sagði það heldur á sínum tíma þegar hún var valinn oddviti borgarstjórnarflokksins í stað Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og það eins þó karlmaður í hópnum, Gísli Marteinn Baldursson, hefði hlotið yfir fimmþúsund atkvæði í fyrsta sæti í síðasta prófkjöri áður, og hefði því einnig komið til greina. Þá var ekki orð um að val Hönnu Birnu sýndi að konum gæti vegnað vel í Sjálfstæðisflokknum. En þegar kona nær ekki þeim árangri sem hún ætlaði, þá vantar ekki stóryrðin. „Sjálfstæðisflokkurinn treystir ekki konum“, er þá æpt og fréttaskýringarþættir fyllast af konum af báðum kynjum sem ræða „bakslag í jafnréttisbaráttunni“ af miklum ákafa.

Í komandi kosningabaráttu, þegar Sjálfstæðisflokkurinn mun tefla fram Hönnu Birnu Kristjánsdóttur en vinstriflokkarnir Degi B. Eggertssyni, hversu margir „kynjafræðingar“ munu þá koma fram og segja að það sé mikilvægt að kona verði borgarstjóri? Auðvitað enginn. En ekki skorti sérfræðingana til að tala um mikilvægi þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði borgarstjóri frekar en þeir karlar sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram.

Þegar Björn Bjarnason varð oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn í stað Ingu Jónu Þórðardóttur, fór mikill söngur af stað í fréttatímum. Sjálfstæðisflokkurinn „treysti ekki konum“ og fréttamenn leituðu álits ótalmargra á „stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum“. Þessi samfelldi áróður, strax eftir að nýr oddviti var valinn, gróf vafalítið mjög undan möguleikum hans í kosningabaráttunni sem í hönd fór.

En hvernig var það svo fjórum árum síðar, þegar Dagur B. Eggertsson bauð sig fram gegn þáverandi borgarstjóra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, og hafði sigur? Þá höfðu fréttamenn engar áhyggjur af „stöðu kvenna innan Samfylkingarinnar“. Þá var ekki nefnt að Samfylkingin treysti ekki konum. Enginn spurði Dag hvers vegna hann vildi ýta þessari konu úr borgarstjórastólnum og hvort það yrði ekki bakslag í jafnréttisbaráttunni.

Og meira en það. Í sama kvöldfréttatíma og ljóst varð að Dagur hafði náð oddvitasætinu úr höndum Steinunnar, lét Ríkisjónvarpið sér ekki nægja að segja ekki orð um stöðu kvenna innan Samfylkingarinnar. Í þessum sama fréttatíma var sagt þrívegis að konur væru „ekki nema“ svo og svo hátt hlutfall af efstu mönnum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði, sem fram hafði farið daginn áður.

Kven-borgarstjóri fellur fyrir ungum karli í prófkjöri Samfylkingarinnar. Fréttamenn telja það ekki koma „stöðu kynjanna“ á neinn hátt við. En þegar hlutfall kvenna er ekki nógu hátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði, þá vakna menn nú á „fréttastofunni“. Það er bara eins og Sjálfstæðisflokkurinn treysti ekki konum, hver eru viðbrögð ykkar á jafnréttisstofu, er þetta ekki bakslag?