Helgarsprokið 24. janúar 2010

24. tbl. 14. árg.
Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn. Stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er því að reynast þjóðinni dýrkeypt, í þessu sem öðru. En þessari vöru fæst ekki skilað, eins og sagt er, heldur virðist ríkisstjórnin ætla að sitja áfram, án þess að boða til kosninga, þar til það er orðið endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum.
– Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, í aðsendri grein í Morgunblaðinu 24. janúar 2009. Rifjað upp í bókinni Þeirra eigin orð, eftir Óla Björn Kárason.

Í dag er ár liðið frá því Steingrímur J. Sigfússon skrifaði þessi ágætu orð í Morgunblaðið. Óhætt er að taka undir flest sem þar var sagt. Fyrir ári var „mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir.“ Fyrir ári var hæglega hægt að „afstýra stórslysi“. Fyrir ári var það hvorki endanlegt né óafturkræft að skuldir vegna starfsemi Landsbankans lentu á komandi kynslóðum skattgreiðenda.

Átta dögum eftir að Steingrímur J. Sigfússon skrifaði þessa áríðandi brýningu í Morgunblaðið tók hann sjálfur við embætti fjármálaráðherra. Aldrei hefur annar eins umskiptingur sést á nokkrum valdastóli og nú vermir ráðherrastólinn í fjármálaráðuneytinu. Maðurinn sem í lok janúar 2009 varaði við „stórslysi fyrir íslenska þjóð“, ef tryggingasjóður innstæðueigenda tæki „við skuldunum“, hefur mest alla sína valdatíð barist harðast af öllu fyrir ríkisábyrgð á Icesave-skuldunum. Steingrímur J. Sigfússon ann sér hvorki hvíldar né fjallgöngu fyrr en „það er orðið endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum“.

Frá valdatöku Steingríms hefur hann ekki barist jafn hart fyrir nokkru máli. Það eina sem kemst í líkingu er barátta hans fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem flokkur hans ályktar gegn sýknt og heilagt og Steingrímur talar harðlega gegn, fyrir hverjar kosningar.

Flestir hlífa Steingrími J. Sigfússyni við upprifjun þessara eða annarra álíka orða hans. En þá sjaldan sem á þau er minnst, svarar Steingrímur með því að hann hafi, eftir valdatöku sína, „fengið nýjar upplýsingar“. Fátt hefur þó verið sagt um hverjar þær „nýju upplýsingar“ hafi verið. Þó mörgum þyki vafalaust sem hér sé eintómur fyrirsláttur á ferð, þá er Vefþjóðviljinn ekki þeirrar skoðunar. Steingrímur J. Sigfússon fékk í raun nýjar upplýsingar. Þær eru þessar: Við völd situr stjórnmálaflokkur, algerlega forhertur í sínu eina baráttumáli, inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Í þeirri viðleitni mun sá flokkur gefa eftir íslenska hagsmuni, hvenær sem þörf krefur. Þessi flokkur er ákaflega óbilgjarn í „samstarfi“ og nú hafa vinstrigrænir tekið við sama meðvirka hlutverki og fyrri samstarfsflokkur þessa flokks hafði. Steingrímur J. Sigfússon er fyrir löngu horfinn í það hlutverk að láta undan svokölluðum samstarfsflokki sínum í öllum helstu málum. Stefna vinstrigrænna og málflutningur Steingríms J. Sigfússonar á liðnum misserum urðu fyrstu fórnarlömbin í þeim leik. Trúverðugleiki Steingríms var hins vegar svo heppinn að hafa fallið frá allnokkru áður, og var því hlíft við þeim örlögum nú.

Á lokamánuðum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði forysta Sjálfstæðisflokksins allt sem hún gat til að friða „samstarfsflokkinn“, í þeirri von um að „stjórnin spryngi ekki“. Sjálfstæðisflokkurinn boðaði meira að segja skyndilandsfund, til að breyta stefnu sinni í Evrópumálum, til að kaupa sér frið. En ekkert dugði. Steingrímur J. Sigfússon fer nú daglega með flokk sinn, lengra þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn fetaði á lokaspretti fyrri stjórnar. En einhvern tíma kemur auðvitað að því, að allir flokkar sjá að Samfylkingin getur ekki starfað með öðrum en sjálfri sér, og varla það. En mikið tjón verður búið að vinna íslenskum hagsmunum, áður en að því kemur.

Hin ágæta blaðagrein Steingríms J. Sigfússonar, síðustu sönnu orð hans um Icesave-málið, á eins árs afmæli í dag. En dagurinn á fleiri afmælisbörn. Í dag eru þrettán ár liðin frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst. Í tilefni þess vill blaðið ítreka þakkir sínar til lesenda sinna fyrir samfylgdina, sem hefur í mörgum tilfellum staðið lengi. Hafi árið 1997 þurft að standa vörð um frelsi borgaranna í orði og æði, sanngjarna þjóðfélagsumræðu og baráttu fyrir réttu en gegn röngu, þá er æði mikil þörf á slíku árið 2010.

Sérstaklega vill blaðið þakka þeim lesendum sem hafa létt því lífið með fjárframlögum, hvort sem er með reglulegum greiðslum eða einstökum. Síðustu vikur hefur oftar en venjulega verið vakin athygli á möguleikum lesenda til þess, og er ástæða fyrir því. Mjög er nú sótt gegn frelsinu. Ótalmargir öflugir aðilar leggja nótt við dag við að brengla opinbera umræðu, tala fyrir fjarstæðum en þegja um staðreyndir. Ráðamönnum er lítið aðhald sýnt. Fréttamenn og þáttastjórnendur opinberra miðla virðast mega leyfa sér hvað sem er í baráttu fyrir persónulegum sjónarmiðum sínum. Og við þetta bætist allsherjaratkvæðagreiðsla um stórfelldar byrðar á landið, án þess að fyrir þeim sé nokkur skylda. Við þessar aðstæður er enn brýnna en ella að frjálslyndum sjónarmiðum sé komið á framfæri og að reynt sé að andæfa rangindum en tala fyrir því sem réttara er. Allur kostnaður við útgáfu Vefþjóðviljans og aðra starfsemi útgefandans, svo sem auglýsingar í útvarpi og dagblöðum, er greiddur með frjálsum framlögum lesenda, og þess vegna hefur blaðið leyft sér að minna svo oft á það undanfarnar vikur. Og undirtektirnar hafa vissulega verið þess eðlis að þær má þakka vel og lengi.

Og ekki má gleyma að þakka þeim sem hnjóðað hafa í Vefþjóðviljann, hvort sem er opinberlega eða í bréfum til blaðsins. Fáir leggja meira af mörkum til að rökstyðja nauðsyn útgáfunnar.