Laugardagur 23. janúar 2010

23. tbl. 14. árg.
Guð sem hefur gefið mönnum veröldina til sameignar, hefur og gefið þeim skynsemi til að nota sér hana svo þeir fái lifað sem best og haganlegast. Jörðin og allt á Jörðinni er mönnum gefið til að þeir fái lifað sem best og haganlegast. Jörðin og allt á Jörðinni er mönnum gefið til að þeir geti haft lífsviðurværi og lífsþægindi. Og þótt öll þau aldin sem Jörðin framleiðir og öll þau dýr sem hún elur tilheyri mannkyni sameiginlega þar sem þau spretta fram úr skauti náttúrunnar, og þótt enginn hafi frá öndverðu einkarétt yfir neinu þeirra meðan þau eru ósnortin í náttúrunni, þá hlýtur að vera einhver leið til að ná eignarhaldi á þeim, því ella geta þau ekki orðið nokkrum einstökum manni að gagni.
– John Locke, Ritgerð um ríkisvald, bls. 72.

R étt eina ferðina fer nú fram umræða um að kollvarpa frjálsa aflamarkskerfinu (kvótakerfi með frjálsum viðskiptum með kvótann) í sjávarútvegi. Þó hafa menn mjög óljósar hugmyndir um hvað gæti komið í staðinn. Og enginn bendir á betri reynslu af einhverju öðru fyrirkomulagi annars staðar í veröldinni.

Ákveðin pólitísk öfl vilja þjóðnýta veiðiréttinn, gera hann að leiktæki stjórnmálamanna. Þá yrði kvótinn í sömu stöðu og góssið er nú sem var þjóðnýtt við fall Landsbankans og fært yfir í nýjan ríkisbanka. Það yrði endalaus tortryggni og deilur um úthlutun. Voru ekki tilraunirnar með byggðakvótann víti til varnaðar? Kvótinn yrði eins og hvert annað vegafé og keppni útgerðarfélaga færðist af miðunum inn í sjávarútvegráðuneytið. Landshlutar þættu detta í lukkupottinn þegar þeir fengju sjávarútvegsráðherrann, líkt og það þykir að fá samgönguráðherra nú.

Það er menn virðast eiga hvað erfiðast með að sætta sig við varðandi frjálsa aflamarkskerfið er að kvótinn sé eign ákveðinna manna eða fyrirtækja og geti gengið kaupum og sölum. Þessi frjálsu viðskipti með kvótann hafa verið nefnd því sérstæða nafni framsal og sjálft kvótakerfið gjarnan nefnt gjafakvótakerfið. Það er auðvitað engin nýlunda að nýtingarréttur á náttúruauðlindum gangi kaupum og sölum. Og einhvern veginn myndast þessi nýtingarréttur í upphafi. Locke lýsir því svo:

Þótt Jörðin og allar óærði skepnur séu sameign allra manna þá hefur hver maður þó eignarrétt yfir sjálfum sér, og yfir honum getur enginn annar haft neinn rétt. Við getum því sagt að hann sé réttmætur eigandi vinnu sinnar og handverks. Hvaðeina sem hann hefur fært úr skauti náttúrunnar hefur hann blandað með vinnu sinni og bætt við það nokkru sem hann á með réttu og þar með gert það að eign sinni. Með því að hafa fært eitthvað úr því ástandi sem náttúran skildi við það í, hefur hann með vinnu sinni bætt við það nokkru sem afnemur sameign annarra á því. Því þar sem vinnan er tvímælalaust eign verkamannsins, þá getur enginn annar en hann haft rétt til þeirra hluta sem vinnan hefur verið lögð í, að minnsta kosti ekki þar sem nóg er eftir í sameign af jafn góðum hlutum fyrir aðra.

Þannig verður grasið sem hross mitt bítur, torfið sem húskarl minn sker og málmurinn sem ég gref úr jörðu, hvar sem ég hef rétt til þess með öðrum, mín eign án þess að nokkur hafi boðið mér að taka eða gefið mér til þess samþykki sitt. Vinnan, sem var mín og færði hlutina úr þeirri sameign sem þeir voru í, hefur fest mér þá til eignar.

Það er því eiginlega ekkert óvenjulegt við það hvernig nýtingarréttur á fiskistofnunum var lögfestur. Þeir sem lagt höfðu fé og vinnu í nýtingu stofnanna árin á undan fengu í megindráttum réttinn, kvótann. Frjáls viðskipti – framsalið – með kvótann gerir það svo að verkum að kvótinn færist til þeirra sem geta gert mest verðmæti úr honum. Þeir geta keypt hina út sem lakari árangri ná.