Fimmtudagur 7. janúar 2010

7. tbl. 14. árg.

Þ au koma í röðum stórtíðindin. Í fyrradag kvaðst forseti Íslands hafa synjað lagafrumvarpi staðfestingar og í gærkvöldi gerðist það að fréttastofa Ríkisútvarpsins fékk áhuga á skoðanakönnunum. Fyrsta frétt gærkvöldsins, hvorki meira né minna, var að meirihluti þátttakenda í nýrri könnun væri ósammála Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands um þá ákvörðun hans að neita að skrifa undir Icesave-ánauðina. Ríkisútvarpið hafði fengið Gallup til að kanna þetta í grænum hvelli, á sama tíma og fréttastofan hélt úti samfelldum hræðsluáróðri gegn ákvörðun forsetans.

En „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins hefur ekki alltaf talið niðurstöður skoðanakannana jafn fréttnæmar. Síðastliðið sumar fékk Andríki Gallup til að kanna heitustu deilumál ársins. Skoðanakannanir Gallup gáfu mjög skýra mynd í þá veru að mikill meirihluti landsmanna væri ósammála ríkisstjórnarflokkunum um að fara með landið inn í Evrópusambandið og einnig ósammála þeim um að senda inngöngubeiðni án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Ríkisútvarpið hefur enn ekki frétt af þessum niðurstöðum. Þegar fyrra Icesave-málið var í gangi fékk Andríki Gallup jafnframt til að kanna hug fólks til þess. Niðurstaðan var sú að yfirgnæfandi meirihluti svarenda var ósammála ríkisstjórninni í málinu. Dögum saman frétti „fréttastofan“ ekki af þeim niðurstöðum heldur, þrátt fyrir daglegar „fréttir“ hennar af því hvernig gengi að afgreiða málið, og það var ekki fyrr en niðurstöðurnar voru hreinlega auglýstar í dagblöðum sem „fréttastofan“ gaf sig og sagði frá þeim í einni frétt.

Í desember, þegar síðara og mun verra Icesave-frumvarp var til meðferðar, lét Viðskiptablaðið gera skoðanakönnun sem sýndi að 70% þátttakenda vildu að forseti Íslands synjaði því frumvarpi staðfestingar. Ríkisútvarpið frétti af því með herkjum.

En núna slær það upp sem fyrstu frétt kvöldsins að naumur meirihluti hafi ekki viljað synjun laganna, í könnun sem tekin er ofan í magnþrunginni hræðsluherferð þar sem allir leggjast á eitt.

Klukkan tíu um kvöldið gerist svo annað, ekki síður fróðlegt. Þá kemur í ljós að Ríkisútvarpið hafði líka spurt um það hvort fella ætti lögin úr gildi, án þjóðaratkvæðagreiðslu. Og niðurstaðan varð sú að það vildu tæplega 70% kjósenda. En þessi niðurstaða var geymd til klukkan tíu, en spurningin um synjun, sem þegar hafði verið tilkynnt og ekki varð breytt, var fyrsta frétt kvöldsins.

Svona er Ríkisútvarpið þessi misserin. Og nú hamast það með samfelldum hræðsluáróðri um það hvað gerist ef Íslendingar „standa ekki við skuldbindingar sínar“ – þó enginn maður hafi bent á neinar skuldbindingar, enda eru þær ekki til.

Ákafastur er „fréttaskýringaþátturinn“ Spegillinn. Þar á bæ eru menn búnir að segja allt nema að golfstraumurinn hætti við að koma og snúi við, ef Íslendingar beygja sig ekki í duftið með ríkisstjórninni.

Nú liggur fyrir Alþingi að setja lög vegna komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ýmsar smávægilegar reglur þarf að setja vegna forms og umgjörðar svo allt verði með eðlilegum hætti. Einna mikilvægast er þó, svo umræða um málið geti farið fram með sanngjörnum hætti, að þegar verði sett skilanefnd yfir „fréttastofu Ríkisútvarpsins“.