Þ rátt fyrir skaðleg viðbrögð ríkisstjórnarinnar er forseti Íslands vísaði Icesave-nauðunginni í þjóðaratkvæði hefur öðrum tekist að snúa málum til nokkuð betri vegar fyrir Ísland í erlendum fjölmiðlum. Þeirra á meðal eru Ólafur Ragnar Grímsson og Hannes H. Gissurarson. Menn geta rétt ímyndað sér hvort málstaður Íslands hefði verið gjörsamlega óvarinn erlendis undanfarið ár ef þeir hefðu verið forsætis- og fjármálaráðherrar í stað veslings fólksins sem valdist til þess á meðan hluti kjósenda var enn í uppnámi eftir bankahrunið.
Þessi viðsnúningur gefur góðar vonir um framhald umræðunnar hér innanlands. Flestir hljóta nú, eða í síðasta lagi á leið á kjörstað í mars, að átta sig á að verið er að taka afstöðu til þess hvort fjármálaráðherra fái heimild löggjafans til að veita ríkisábyrgð á lánum vegna Icesave-reikninganna. Fyrr verður þessi ríkisábyrgð ekki veitt. Og rennur þá ekki upp fyrir öllum mönnum að eins og staðan er nú er engin ríkisábyrgð á Icesave skuldunum? Íslendingar verða ekki ábyrgir fyrir Icesave skuldunum nema þeir tapi fyrir sjálfum sér í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Það eru engin lög – hvorki íslensk lög né tilskipanir Evrópusambandsins – sem mæla fyrir um að skattgreiðendur séu bakhjarlar innstæðutrygginga. Jafnvel vinstrigræni Evrópuþingmaðurinn Eva Joly er þeirrar skoðunar að engin ríkisábyrgð hafi verið á innstæðutryggingakerfum í Evrópu. Hún segist hafa það frá höfundum tilskipunar ESB um innstæðutryggingar.
Á næstu dögum mun Andríki reyna að koma þessari staðreynd á framfæri með auglýsingum í útvarpi og ef til vill víðar ef efni eru til. Fyrst um sinn verður lögð áhersla á að auglýsa eftir kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins sem er helsta áróðursmiðstöð ríkisstjórnarinnar í þessum málum sem öðrum.
Stuðningsmenn Icesave-ánauðarinnar eru með menn á launum á fréttastofu og Spegli Ríkisútvarpsins. Þeir sem vilja sporna gegn ánauðinni þurfa hins vegar að greiða eittþúsund krónur fyrir hvert orð sem þeir vilja koma að.
Sem fyrr verða auglýsingar af þessu tagi fjármagnaðar af þeim góða hópi einstaklinga sem styðja Andríki, ýmist með stöku framlagi eða reglubundnum hætti á greiðslukorti.
S tjórnarflokkarnir hafa lagt svo mikið undir í Icesave-málinu að það yrði hreinlega álitshnekkir fyrir þá ef betri niðurstaða fengist fyrir Ísland en sú nauðung er sem þeir hafa gert að sínu helsta baráttumáli. Þeir hafa í tæpt ár reynt af miklu offorsi að fá íslenska skattgreiðendur til að taka á sig ótakmarkaða ábyrgð á viðskiptum sem voru íslenskum skattgreiðendum gjörsamlega óviðkomandi. Svo mikið hefur kappið verið að ráðherra hefur hrökklast úr ríkisstjórninni fyrir að hreyfa mótbárum.
Í þessu ljósi má spyrja hvort stjórnarflokkarnir séu hæfir til að halda á hagsmunum Íslands á næstu misserum. Sér í lagi hlýtur sú spurning að vakna um Samfylkinguna. Til viðbótar því að hafa staðið að hinni fullkomnu uppgjöf fyrir Íslands hönd í samningaviðræðunum svonefndu um Icesave flækir draumurinn um ESB aðild Íslands málið fyrir Samfylkingunni. Samfylkingin getur ekki skilið Icesave málið frá ESB-umsókninni. Hún ætti bágt með að fórna ESB-aðildinni fyrir hagsmuni Íslands í Icesave-málinu.