Fimmtudagur 17. desember 2009

351. tbl. 13. árg.
Tryggt er að tekjuskattshlutfall verði ekki hærra en 15% fyrstu 5 ár af gildistíma fjárfestingarsamningsins, 18% næstu 5 ár og 25% síðustu 10 árin.
– Úr greinargerð frumvarps til laga um um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ

Á sama tíma og ríkisstjórnin er að hækka alla skatta á allt og alla leggur iðnaðarráðherra fram frumvarp þar sem ríkisstjórninni er gert heimilt að veita ákveðnu fyrirtæki tryggingu gegn þessum sömu skattahækkunum og einnig gegn skattahækkunum í framtíðinni. Hér er því um að ræða framvirkan samning um skatta. Norræna velferðarstjórnin er komin í afleiðuviðskipti með skatthlutföll við erlenda áhættufjárfesta sem ætla að reisa gagnaver suður með sjó.

Auðvitað er þetta frumvarp ekkert annað en viðurkenning á því að skattastefna ríkisstjórnarinnar hrekur fjárfesta frá landinu. Þeir fást ekki til að koma hingað nema fá undanþágur frá sköttunum sem ríkisstjórnin hefur þegar hækkað og tryggingar gegn skattahækkunum í framtíðinni. Aðrir eru á leið úr landi vegna skemmdarverka ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu.

Þeir munu þó ef til vill koma við á einum stað áður en haldið er annað með peningana. Nú fyllast biðstofur ráðuneytanna aftur af mönnum sem telja sig eiga að fá svona undanþágur frá skattheimtu ríkisstjórnarinnar.