Miðvikudagur 16. desember 2009

350. tbl. 13. árg.

N ú hefur á þrítugasta og fimmta þúsund manna skrifað undir áskorun til forseta Íslands að hann synji yfirvofandi Icesaveánauðar-lögum staðfestingar, rétt eins og hann synjaði frumvarpi um breytingar á útvarpslögum staðfestingar fyrir fimm árum. Við þessa tölu bætast svo þeir Andrés Önd, Gordon Brown og Ólafur Ragnar Grímsson, sem munu meðal annars hafa verið færðir í söfnunina úr tölvum sem skráðar eru í stjórnarráðinu og hjá Ríkisútvarpinu, og kemur það ekki á óvart.
Ekki kemur heldur á óvart að Ríkisútvarpið sér enga þörf til að upplýsa hvaða starfsmenn þess hafi tekið að sér gerviskráningar til að grínast eða spilla fyrir söfnuninni, og liggja því enn undir grun allir starfsmenn þess, fréttamenn, dagskrárgerðarmenn, skrifstofufólk og allir aðrir. En ef á Ríkisútvarpinu væri ekkert annað gert til að brengla íslenska þjóðfélagsumræðu og afvegaleiða almenningsálit en að grínast með eina undirskriftasöfnun, þá væri auðvitað margt betra á Íslandi. Svo þetta er kannski ekki stórmál.

SEn auðvitað þarf ekki að koma á óvart þó starfsmönnum Ríkisútvarpsins þyki mjög fyndin hugmyndin um að eitthvað í þeirra ranni verði rannsakað. Á þeirri stofnun þykir ennþá sjálfsagt að menn sem standa í harðri þjóðmálabaráttu frá degi til dags stjórni jafnframt umræðuþáttum í Ríkisútvarpinu um sömu hluti og þeir hafa tjáð sig um mjög eindregið annars staðar opinberlega. Enginn sér neitt athugavert við þetta í Efstaleiti. Gagnrýni á þetta er svarað með útúrsnúningi eða heift. Á þeirri stofnun sér enginn neitt nema fyndið við nokkrar grínundirskriftir í undirskriftasöfnun um heitasta deilumál ársins. Þeir voru líka svo fáir, grínaranir.

tundum þegar slagsíðan á íslenskum fjölmiðlum kemur til tals, vekur Vefþjóðviljinn athygli lesenda sinna á fjölmiðla-bókum Ólafs Teits Guðnasonar, sem eru ákaflega upplýsandi um það hvernig fjölmiðlar hafa beitt sér undanfarin ár. Þeir sem kynna sér þær bækur eru líklegir til að fylgjast með fréttum með öðrum augum upp frá því.

Lesendur tóku vel við sér þegar bækurnar Þeirra eigin orð, eftir Óla Björn Kárason, og Peningarnir sigra heiminn, eftir Niall Ferguson, voru kynntar fyrr í mánuðinum. Meðal annars er elsta fjölmiðlabók Ólafs Teits, sú sem fjallar um átakaárið 2004, Fjölmiðlar 2004, nú uppseld, bæði hjá útgefanda og Bóksölu Andríkis. Eitthvað er hins vegar enn til af hinum þremur.