Mánudagur 14. desember 2009

348. tbl. 13. árg.
Gott kvöld. Verði Icesave-deilunni ekki lokið áður en stjórn alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekur efnahagsáætlun Íslands til endurskoðunar í janúar gæti afgreiðslan tafist enn. Allt veltur á því að fjármögnun liggi fyrir, en um það ráða Danir, Svíar og Norðmenn mestu.
– Fréttastofa ríkisins heilsar áheyrendum í kvöldfréttum sínum, 14. desember 2009.

H ún má eiga það að hún er óþreytandi í baráttunni, „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins. Um helgina þuldi hún yfir áheyrendum þær staðhæfingar Steingríms J. Sigfússonar, að nú yrði að tryggja Icesave-ánauðina á landsmenn „fyrir jól“, því annars gæti endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands verið í uppnámi. Í öðrum löndum hefðu fréttamenn, frekar en að endursegja eina „úlfur-úlfur“-ræðu ráðherrans enn, tekið saman hvernig ráðherrar hefðu mánuð eftir mánuð fullyrt  annað eins og jafnvel meira, ranglega, um erlend viðbrögð við atburðum hér. En því er aldrei að heilsa á íslenskum fréttastofum. Þar hafa ráðherrar fengið að mala aðhaldslaust síðan í febrúar.

En jafnvel „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins áttar sig á því að takmörk séu fyrir því hversu oft í viku hægt er að bjóða upp á innihaldslausan hræðsluáróður ráðherra og hversu oft í viku hægt er að sýna gagnrýnislausan fréttamann kinka kolli við hliðina á dramatískum ráðherranum. En þá er auðvitað hægt að nota aðrar aðferðir við að halda baráttunni áfram.

Fyrsta frétt í kvöld var einfaldlega einræða fréttamanns um þetta sama, að verði Icesave-deilunni ekki lokið hratt og vel þá gæti næsta endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tafist, sem sumum mun þykja ekki minni heimsendir en hlýnun jarðar, og mun verra en að allt að þúsund milljarðar króna í erlendum gjaldeyri séu að ósekju lagðir á landsmenn.

Ekki var talað við neinn mann í „fréttinni“, ekki vísað í nein gögn, upplýsingar eða nokkurn hlut. Einfaldlega einræða fréttamanns og þetta sent út sem fyrsta „frétt“. Ekki einu sinni hringt í Indriða.

En það kemur kannski á morgun.