Helgarsprokið 13. desember 2009

347. tbl. 13. árg.
Spánverjum tókst ekki að skilja að verðgildi góðmálma er ekki óbreytanlegt. Verðgildi peninga er aðeins það sem einhver vill láta fyrir þá. Aukið peningaframboð eykur ekki auð þjóðfélagsins þó það geti auðgað ríkisstjórn sem hefur einkaleyfi á peningaframleiðslu. Að öðru jöfnu leiðir aukið peningamagn í umferð aðeins til verðhækkana.
Peningarnir sigra heiminn – fjármálasaga veraldarinnar, bls. 33.

Í vor gerði Vefþjóðviljinn nokkur skil nýlegri og merkilegri bók eftir skoska sagnfræðinginn Niall Ferguson, The Ascent of Money, um sögu fjármála frá ítölsku endurreisninni til okkar kreppuþjáðu daga. Nú er endurbætt útgáfa bókarinnar komin út á íslensku undir nafninu Peningarnir sigra heiminn – fjármálasaga veraldarinnar.

Þar er meðal annars að finna lýsingu á þeim áhrifum sem fundur Spánverja á gríðarlegu magni af silfri í vesturheimi hafði á verðmæti myntarinnar sem slegin var úr því. Hún féll í verði í samanburði við aðrar vörur. Þetta skilja raunar ekki nútímamenn heldur og eftirláta stjórnmálamönnum seðlaprentunarvaldið. Það vald nota þeir til að „örva efnahagslífið“ með „innspýtingu fjármagns“ og óraunhæfum vaxtalækkunum sem koma af stað verðbólum sem springa svo með miður kunnuglegum afleiðingum.

Í bókinni er að finna greinargóða frásögn af þróun peninga og fjármála heimsins eða eins og Vefþjóðviljinn sagði í vor.

Þó sagan sé rakin til Mesópótamíu er meira miðað við Ítalíu endurreisnarinnar, þar sem Medici-ættin átti stóran þátt í upphafi eiginlegrar bankastarfssemi. Ekki leið langur tími uns skuldabréf og skuldabréfamarkaðir litu dagsins ljós. Ítölsku smáríkin áttu oft í stríði hvert við annað og þessi stríðsrekstur var mun kostnaðarsamari en svo að skattheimta ein stæði undir því. Lausnin var útgáfa skuldabréfa.

Næsta stórstökk í þróun fjármálamarkaða var tilkoma hlutafélagsins, í Hollandi á sautjándu öld. Hlutafélög finnast um heim allan í dag og eiga það flest sameiginlegt að þau eru lögaðili með takmarkaða ábyrgð. Það þýðir að skuldbindingar hlutafélags lenda ávallt á hlutafélaginu sjálfu en ekki eigendum þess. Þessi nýjung auðveldaði Hollendingum að fjárfesta í Hollenska Austur-Indía félaginu, sem var stofnað til að brjóta á bak aftur einokun Spánverja og Portúgala í kryddversluninni milli Evrópu og Asíu. Sá böggull fylgdi þó skammrifi, þá sem nú, að þó svo fjárfestar í hlutafélögum ættu ekki á hættu að glata meiru en því sem þeir lögðu í félagið, það er það verð sem þeir greiða fyrir hlutabréfin, þá var vissulega engin trygging fyrir því að fjárfestingin bæri nokkra ávöxtun. Skipasiglingar fyrir Góðrarvonarhöfða eru enn þá áhættusamar, en töluvert meira svo í þá daga.

Í fjármálaheiminum er áhætta vitaskuld lykilhugtak. Hún er alltaf til staðar, því óháð því hversu upplýstir sem menn telja sig vera, þá er aldrei hægt að útiloka alla óvissu. Eðlilega reyna menn eftir bestu getu að lágmarka áhættuna og dreifa henni sem best þeir geta. Úr þeim jarðvegi spretta tryggingafélög og sömuleiðis hluti hugmyndarinnar á um velferðarríkið.

Svona rekur Ferguson þetta áfram; frá upphaf bankastarfsemi, tengsl stríðsrekstrar ítalskra ríkja við tilurð skuldabréfamarkaða, hlutafélög og hlutabréf, tryggingar, og áfram í vogun, sem á upphaf sitt að rekja til landbúnaðar, og afleiður, allt fram í þá fjármálagjörninga sem búa að baki undirmálalánunum, sem eru rótin að kreppu dagsins.

Það er margt annað áhugavert sem kemur við sögu. Meðal annars ótrúleg saga John Law, Skota sem flúði úr fangelsi eftir að hafa fellt mann í einvígi, faldi sig í Amsterdam og fór þaðan til Frakklands þar sem hann komst til lygilegra metorða innan stjórnsýslunnar. Á hápunkti ferilsins stjórnaði hann allri myntsláttu franska ríkisins, var yfirmaður allrar skattheimtu ríkisins, réði Louisiana nýlendunni í norður Ameríku, var yfir Mississippi félaginu sem átti einokunarrétt á innflutningi og sölu tóbaks í Frakklandi og réði þar að auki yfir allri verslun Frakklands við Afríku, Asíu og víðar.

Ferguson fer einnig yfir Kreppuna miklu og hvernig hún var að þarflausu framlengd með röngum viðbrögðum hins opinbera. Hann rekur einnig sorgleg örlög Argentínu; hvernig ríkisábyrgðir á bankainnstæðum ollu Saving & Loans fjármálahneykslinu, þar sem skattgreiðendur urðu að lokum að greiða 124 milljarða Bandaríkjadala tap þessara sparisjóða og í framhaldi af því fíaskói öllu heyrðist það fyrst, að besta aðferðin við að ræna banka sé að vera eigandi þeirra; hvernig Chile snerist, með raunar ofbeldisfullum hætti, frá þeim stöðnunarsósíalisma sem hrjáði alla suður Ameríku á þessum tíma til vestræns markaðsbúskaps og bjó í framhaldinu til lífeyrissjóðskerfi sem forðast þá pytti sem til dæmis Japan er nú djúpt sokkið í, það er að segja æ færri vinnandi hendur greiða fyrir æ fjölmennari hóp eldri borgara og hefur vafið þessa miklu iðnaðarþjóð skuldum.

Í þessari lýsingu hljóta Íslendingar að staldra við skýringuna á hlutafélagi: Hlutafélög finnast um heim allan í dag og eiga það flest sameiginlegt að þau eru lögaðili með takmarkaða ábyrgð. Það þýðir að skuldbindingar hlutafélags lenda ávallt á hlutafélaginu sjálfu en ekki eigendum þess. Með samkomulagi Icesave-stjórnarinnar við bresk og hollensk stjórnvöld er ekki búið að víkka ábyrgð gjaldþrota einkahlutafélags til eigenda þess heldur til almennra skattgreiðenda á Íslandi, fæddra sem ófæddra.

Peningarnir sigra heiminn fást nú í bóksölu Andríkis fyrir aðeins kr. 4.500 með heimsendingu.