H vern föstudag eru tilkynningar eins og þessi, algengar í lesnum auglýsingum Ríkisútvarpsins.
Óskum Gunnari, Skarphéðni og Njálínu góðs gengis í útsvari á morgun. Rimmugýgur ehf. Flosaeldspýtur. Fótaaðgerðastofa Bergþóru. |
Hvað er eftirtektarvert við þessa tilkynningu? Jú, þegar margar slíkar hafa heyrst, eða menn hafa séð marga þætti af „útsvari“, virðist sem kynjahlutföll keppenda séu ávallt þau sömu. Tveir karlar, ein kona. Hugsanlega er það tilviljun, og hugsanlega hefur Ríkissjónvarpið sett þá reglu að í hverju liði skuli vera að minnsta kosti einn keppandi af hvoru kyni. Annar möguleikinn er vissulega líklegri en hinn, en sama er Vefþjóðviljanum.
Auðvitað má sá sem heldur keppni setja allar slíkar reglur sem hann vill. Verra er hins vegar að hin taugaveiklunarkennda kynjahlutfallamæling hefur fyrir löngu teygt sig inn á önnur og alvarlegri svið. Þannig hefur ríkið lengi rekið nefnd um „aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“, sem hikar ekki við auglýsa gegn karlframbjóðendum þegar flokkarnir halda prófkjör. Ráðherrar hóta að beita valdi til að pína eigendur fyrirtækja til að velja stjórnarmenn í fyrirtækin eftir kynjahlutfalla-vilja ráðherranna, og fréttamenn hafa gríðarlegan áhuga á hlutföllum kynja í nefndum og ráðum, en yfirleitt minni áhuga á því hvað nefndarmennirnir gera, svo lengi sem kynjahlutföllin séu „rétt“.
Eitt svakalegasta dæmið var þegar alþingi valdi svonefnda „rannsóknarnefnd“ sína vegna bankaþrotsins í fyrra. Þá var tilkynnt að búið væri að velja tvo sérfræðinga í stjórnsýslurétti – enda raunverulega hugmyndin með nefndarstarfinu að reyna að finna sem mest mistök stjórnsýslunnar – en nú væri leitað þriðja nefndarmannsins, sem yrði að vera kona. Við erum að reyna að finna „einhverja konu“, var haft eftir Þuríði Backman, fulltrúa vinstrigrænna í forsætisnefnd alþingis, þegar leitin að þriðja nefndarmanninum stóð sem hæst. Og svo vanir eru menn kynjahlutfallatalningunni, að enginn gerði athugasemd.
Þegar konan fannst, þá urðu menn svo fegnir að þeir ákváðu að láta eins og hún gæti setið áfram í nefndinni þegar í ljós kom að hún hafði tilkynnt á opinberum vettvangi, áður en nefndarstarfið hófst, hverjar meginniðurstöðurnar yrðu. Það er met. Í öllum öðrum tilfellum hefði nefndarmaðurinn þegar vikið sæti. Þarna gat hins vegar enginn hugsað sér að þurfa að fara aftur og finna „einhverja konu“.