Í gær var birt fyrsta og eina skoðanakönnunin um heitasta deilumál síðustu vikna, nýjustu Icesave-ánauðina. Eins og Vefþjóðviljinn leyfði sér að benda á, þá var ekki minnst á niðurstöðurnar í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins enda fréttatíminn fullur af stóratburðum eins og því að ungir menn á Ísafirði hefðu reynt að borða kíló af kjöti og tímarit valdi Jóhönnu Sigurðardóttur „konu ársins“. Val tímaritsins þótti þannig mun markverðara en könnun á skoðun landsmanna á Icesave-ánauðinni.
En auðvitað kom Vefþjóðviljanum ekki á óvart að Ríkissjónvarpið frétti ekki af könnuninni, frekar en venjulega. Og til að halda skemmtuninni áfram, þá má geta þess að í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins var ekki minnst á hana heldur, enda þurfti að fjalla um mikilvægari mál eins og nýja lest í Kína og álit nefndar á því hvernig væri hægt að koma íslenskum hestum á ólympíuleika. Það var sagt geta tekið fimmtán ár, ef allt gengi upp.
J ólahefti Þjóðmála er komið út og kennir þar ýmissa grasa sem áhugamenn um þjóðmál og menningu geta tínt sér. Birtur er kafli úr hinni sérlega athyglisverðu bók Styrmis Gunnarssonar, Umsátrinu, og ýtarleg grein um bókina. Þá grein skrifar hins vegar ekki samherji Styrmis heldur Ögmundur Jónasson alþingismaður, og lofar bæði og lastar af fullri hreinskilni að því er lesanda mun virðast. Óhætt er að mæla með grein Ögmundar, hvort sem menn verða nú sammála höfundi um alla hluti eða ekki. Atli Harðarson heimspekingur veltir fyrir sér hvað felist í hægrimennsku, Ólafur Nielsen formaður SUS mælir með niðurskurði fremur en skattahækkunum og kemur líklega ekki á óvart, afrekshlauparinn Gunnlaugur Júlíusson skrifar um hlaup sín og bókarskrif, Hannes H. Gissurarson skrifar um ýmis íslensk skáld tuttugustu aldar sem ortu sig frá þeim sósíalisma sem þau ýmist höfðu boðað eða höfðu verið talin velviljuð, Bjarni Jónsson skrifar um vatnsbúskap og auðlindastjórnun og meðal annarra ólíkra höfunda má nefna Björn Bjarnason, Jón Ríkharðsson sjómann, Vilhjálm Eyþórsson rithöfund, Lárus Jónsson fyrrverandi bankastjóra og Bryndísi Schram.
Í Bóksölu Andríkis má tryggja sér bæði áskrift að Þjóðmálum og stök hefti tímaritsins. Ársáskrift kostar aðeins 4.500 krónur og er heimsending innanlands vitaskuld innifalin.