Fimmtudagur 19. nóvember 2009

323. tbl. 13. árg.

Í gær kynnti ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna mikla hækkun á nær öllum sköttum sem lagðir eru á landsmenn og kynnti einnig til sögunnar ýmsa nýja skatta. Og sem afsökun fyrir því að gera þetta heftur stjórnin skuldirnar og vextina af Icesave-ánauðinni sem hún ætlar sjálf að koma þjóðinni í.

Því er spáð hér að „skattbyrði“ landsmanna muni mjög fljótlega léttast við þessar skatthækkanir.

Fjárfestingar munu nefnilega dragast saman frá því sem ella væri, fjármagn mun flýja land, eftirsótt vinnuafl mun flýja land, menn með nýjar hugmyndir munu leita annað, atvinnutækifærum fækka og laun lækka. Við þetta munu stórir hópar manna rúlla niður nýju skattaþrepin og „skattbyrði“ þeirra þar með léttast. Svo mun Stefán Ólafsson prófessor í félagshyggju við Háskóla Íslands koma og kynna mönnum þau tíðindi að ríkisstjórnin hafi snarlækkað skattbyrðina.

Skattbyrðin lækkar vissulega þegar stór hluti manna lækkar í launum niður undir skattleysismörk.

Allir munu tapa á þessu, almenningur en ekki síður ríkissjóður.

Þ ótt ríkisstjórnin vegi með þessu að hag allra landsmanna viðurkennir hún aðeins að svonefndir auðmenn séu sérstakt skotmark hennar. Til þeirra ætlað hún að ná með ýmsum hætti, hærri fjármagnstekjuskatti, háum tekjuskatti og nýjum eignarskatti sem hún nefnir „auðlegðargjald“. Þessi hópur manna er ef til vill ekki sá sem nýtur mestrar lýðhylli nú um stundir og því er vissulega lag fyrir stjórnina. En hvað sem segja má um einstaka fyrrum auðmenn þá eru þeir sem eftir standa mjög mikilvægir. Þeir hafa bolmagn til að fjárfesta í atvinnurekstri.

Þetta bolmagn ætlar ríkisstjórnin að uppræta með nýjum sköttum.

S teingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi í gærkvöldi að skattahækkanirnar væru í norrænum anda. Á sama tíma var Ögmundur Jónasson flokksbróðir hans að skrifa á vef sinni um „aðför“ og „óheilindi“ Norðurlandanna gagnvart Íslandi í Icesave málinu.

Það má til sanns vegar færa að án þessara óheilinda Norðurlandanna hefði Steingrímur ekki þá afsökun sem hann notar nú til að hækka skattana.