Miðvikudagur 18. nóvember 2009

322. tbl. 13. árg.

Fyrir 7 árum voru þingmenn vinstrigrænna og Samfylkingar flestir andvígir eða tvístígandi í afstöðu sinni til frumvarps um að veita Decode Genetics Inc. ríkisábyrgð upp á 200 milljónir dala til lyfjaþróunar sem fram átti að fara í dótturfélagi þess hér á landi. Vefþjóðviljinn var að sjálfsögðu andvígur þessu frumvarpi. Ríkisábyrgðin var hins vegar aldrei nýtt enda tók við tímabil hins ódýra fjármagns úr stærstu seðlabönkum heimsins.

Þetta er rifjað upp nú þegar hluthafar Decode hafa tapað öllu hlutafé sínu. Einhver gæti því ætlað að málið yrði víti til varnaðar.

Nú liggur hins vegar fyrir Alþingi annað frumvarp um að ábyrgjast skuldbindingar einkafyrirtækis. Sú ábyrgð er ekki upp á 200 milljónir dala heldur óþekkta stærð sem getur verið 2.000 milljónir dala eða þaðan af meira Það mátti segja ýmislegt um framtíðarhorfur fyrir Decode fyrir 7 árum en vart verður því haldið fram að þær hafi verið dekkri en gjaldþrota Landsbankans nú um stundir.

Ætla þingmenn VG og Samfylkingar sem gátu ekki stutt 200 milljóna dala ríkisábyrgð til einkafyrirtækis árið 2002 vegna áhættunnar að samþykkja 2.000 milljóna dala ábyrgð til þrotabús Landsbankans?

Í umræðum á Alþingi um ríkisábyrgðina á Decode á sínum tíma leiddi Ögmundur Jónasson andstöðuna. Og hann velti ýmsu fyrir sér. Meðal annars spurði hann hvernig stóð á því að íslensku ríkisbankarnir keyptu bandaríska fjárfesta út úr Decode árið 1999. Þeirri spurningu hefur aldrei verið svarað. Hvað gekk ríkisbönkunum til með þessu? Margir túlkuðu þessi kaup sem mikla traustyfirlýsingu.

Menn hafa verið að rekja upphaf íslensku verðbólunnar til ýmissa mála, þar með talið einkavæðingar bankanna og viðskipta með bréf Decode. En kaup bankanna í Decode voru fyrir einkavæðingu.