S tefán Pálsson sagnfræðingur varpaði í síðustu viku fram þeirri spurningu á vef sínum hvort af uppsetningu innréttinga á heimili hans fengist endurgreiddur virðisaukaskattur. Hann hafði látið smið setja upp bókahillu, fyrir ársreikninga Sigfúsarsjóðs fram að stofnun Samfylkingarinnar og árbækur Lutons Towns.
Ástæðan fyrir því að Stefán spyr er annars vegar að um ákveðin handverk á heimilum hafa lengi gilt sérstakar reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Hins vegar hefur oft verið hringlað með þessar reglur, endurgreiðsluhlutfalli breytt og einnig þeim verkum sem falla undir reglurnar.
Ef veggur er sagaður niður með steinsög fæst ekki endurgreiddur virðisaukaskattur af verkinu því það er vélavinna. Ef menn brjóta vegginn niður með sleggju er það handverk sem skatturinn launar með endurgreiðslu. Út á handrið sem smíðað er í smiðju fást engin fríðindi frá skattstjóra en hann launar mönnum með 19,6% endurgreiðslu ef það er smíðað á staðnum, en þá líklega aðeins með berum höndum. Umsókn um þessar endurgreiðslu er tímafrekt leiðindaverk fyrir umsækjandann. Við hinn enda rörsins sitja starfsmenn skattsins og fara yfir umsóknir og flóð fylgigagna.
Það er því ekki að undra að jafnvel menn sem sitja árum saman sveittir við að semja spurningar og aðrar þrautir fyrir skólapilta hafi ekki svör við þessu.
Skattkerfi með alls kyns undanþágum, þrepum, tekjutengingum og endurgreiðslum eru nefnilega óþolandi. Ef menn vilja rétta hlut einhverra hópa eiga menn að gera það með beinum greiðslum en ekki blanda skattkerfinu í málið. Það flækir bæði skattkerfið og felur raunverulega tekjujöfnun og millifærslur. Og sem kunnugt er vilja menn endilega hafa „allt upp á borðum“, nema fáklædda dansara, um þessar mundir. Það má ná fram öllum markmiðum flókins skattkerfis með bótakerfinu. Það þarf ekki að eyðileggja skattkerfið til að koma bótum til skila.
En þótt Stefán skilji hvorki upp né niður í reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts segir hann nokkrum dögum síðar á vef sínum að nú éti „hver upp eftir öðrum að fjölþrepaskattkerfi sé slæmt. Fyrir því eru hins vegar ekki tiltekin mikið merkilegri rök en einhver skattkerfisfagurfræði.“
Jú, pistill Stefáns nokkrum dögum áður.