Mánudagur 16. nóvember 2009

320. tbl. 13. árg.

E itt af því sem Samfylkingin hefur lagt landsmönnum til í erfiðleikum þeirra nefnist Guðbjartur Hannesson. Síðasta vetur, þegar vinstrigrænir voru öskraðir inn í stjórnarráðið og hrunsáraráðherranir Össur og Jóhanna voru hækkuð í tign, var Guðbjartur Hannesson gerður að forseta Alþingis. Náði hann fljótt sérstöðu í hópi þeirra sem því starfi hafa gegnt, því hann virtist greinilega líta svo á að forsetaskyldurnar væru einungis við ríkisstjórnina en hvorki við þingið sjálft né réttindi einstakra þingmanna. Mun Guðbjartur hafa á forsetaferli sínum tekið eina sjálfstæða ákvörðun, þegar hann, eftir þingkosningar, ákvað að draga mjög úr skyldu þingmanna að ganga snyrtilega til fara. Þetta tvennt og ekki annað liggur eftir forsetaferil Guðbjarts Hannessonar. Eftir kosningar var honum launuð þjónustan með því vera látinn víkja fyrir Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur síðar vopnaleitarþega.

Nú er Guðbjartur aftur farinn á stað. Nú er hann formaður fjárlaganefndar og hefur fengið fyrirskipun um að keyra nýjan Icesave-samning í gegnum þingið hratt og örugglega. Í dag ætlar hann að afgreiða málið úr fjárlaganefnd og segir alveg óhætt að samþykkja þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim fyrirvörum sem Alþingi hefur nýsett á ríkisábyrgðarheimildinni. Í viðtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi útskýrði Guðbjartur það fyrir áhyggjufullum löndum sínum.

Ja allavegana að mínu áliti, að þessar breytingar séu ásættanlegar, og séu sumar hverjar betri og aðrar kannski svipaðar eftir þessar breytingar, þannig að það sé óhætt að samþykkja þessa ríkisábyrgð miðað við fyrri afgreiðslu.

Í sumar setti Alþingi fyrirvara við ríkisábyrgðarheimildina. Þeir voru vissulega ekki mjög miklir, en þó betra en ekkert. Nú er málið hins vegar aftur komið fyrir alþingi vegna þess, eins og flestir vita, að bresk og hollensk stjórnvöld sættu sig ekki við fyrirvarana. Kemur þá formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, og fullyrðir í fréttum að fyrirvararnir séu nú ýmist betri fyrir Ísland eða svipaðir. Með öðrum orðum, að Bretum og Hollendingum hafi þótt fyrri samningar of góðir fyrir sig og of vondir fyrir fyrir Ísland. Hvernig er eiginlega hægt að bjóða fólki upp á slíkan málflutning? Að nýju fyrirvararnir séu bara betri en þeir sem Bretar og Hollendingar höfnuðu. Eru engin takmörk fyrir því hversu lítið Guðbjartur Hannesson er tilbúinn að gera úr sjálfum sér, til að hlýða Jóhönnu og Össuri?

Og að því spurðu, eru aðeins tvær spurningar eftir: Hvort er líklegra, að Guðbjartur Hannesson treysti því einfaldlega að áheyrendur sínir séu svo yfirgengilega vitlausir að þeir skilji þetta ekki, eða þá að Guðbjartur Hannesson trúi þessu rugli sjálfur? Og hvort væri verra?