Fimmtudagur 12. nóvember 2009

316. tbl. 13. árg.

Haft var eftir Jóhönnu Sigurðardóttur í vikunni að ekki væri vitað hversu miklar skattahækkanir heimilin í landinu þyldu.

Það er ágætt að Jóhanna átti sig á þessu.

Það sem er verra, er að Jóhanna virðist hafa ákveðið að komast að því.

R áðherrarnir vinna fyrir kaupinu sínu. Að minnsta kosti Gylfi Magnússon sem fór í fréttir í gærkvöldi og sagði það vera algert ábyrgðarleysi ef skattar yrðu ekki hækkaðir.

Hinir hækkuðu skattar munu koma úr tveimur áttum: Annars vegar frá hinum almenna manni, launþegum og viðskiptavinum verslana. Hins vegar frá fyrirtækjunum sem einnig fá sérstakan glaðning frá Jóhönnu, Gylfa og félögum. Hækkandi skattar einstaklinga þýða svo augljóslega minna ráðstöfunarfé einstaklinganna, sem eiga þá erfiðara með að standa í skilum og verða að draga úr kaupum sínum á vörum og þjónustu, sem leiðir til samdráttar hjá fyrirtækjum, launalækkana og uppsagna starfsfólks. Sem í framhaldinu mun leiða til minnkandi skatttekna og aukins atvinnuleysis og aukinna útgjalda kerfisins sem Jóhanna ætlar að verja með sífellt meiri skattahækkunum.

Á sama tíma er haldið áfram með byggingu tónlistarhúss í Reykjavík, án þess að fjárlög ríkisins eða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar séu spurð álits. Hundruð Kínverja skulu flutt til landsins að setja upp heimsins fínasta gler utan á húsið, því hér má ekkert spara. Í Morgunblaðinu kom fram í vikunni að kostnaður við byggingu hússins verður tæplega 27 þúsund milljónir króna. Enn er hins vegar hægt að stöðva framkvæmdina og spara þúsundir milljóna. En það mega stjórnvöld ekki heyra nefnt heldur hækka bara og hækka skattana.

Í hvaða heimi ætli sé kennd sú hagfræði sem mælir með þessum aðgerðum öllum? Það er ekki víst en hitt liggur þó fyrir að í þeirri hagfræði má Gylfi Magnússon vera dósent eins lengi og hann vill.