Miðvikudagur 11. nóvember 2009

315. tbl. 13. árg.

Á

Ég hlusta ekki á neitt jarm. Borga borga borga skatta skatta skatta.

dögunum var að frumkvæði íslenska ríkisins efnt til mikils björgunarleiðangurs. Flokkur sauðfjár hafði haldist við í fjöllum við Tálknafjörð og að sögn lifað þar í áratugi, kind fram af kind, þrátt fyrir að stundum hafi blásið kalt. Íslenska ríkið skarst í leikinn og sendi út björgunarsveit. Kindurnar voru eltar fram á ystu nafir, handsamaðar og fluttar í böndum á öruggan stað. Þar var þeim daginn eftir safnað í flutningabifreið og ekið sem leið lá í sláturhúsið á Sauðárkróki. Á öðrum degi var búið að slátra flokknum.

Þeir sem báðu kindunum griða, þeim var sagt að þetta væri algerlega nauðsynlegt, vegna „dýraverndar“.

Nú virðist íslenska ríkið hafa efnt til annars björgunarleiðangurs og jafnvel tilkomumeiri. Sá fyrri var farinn að frumkvæði sýslumanns en núna eru það yfirboðarar hans sem halda um taumana svo nú verður enginn afsláttur gefinn. Allt verður það sem fyrr gert í nafni verndar þeirra sem á að bjarga.

Til að bjarga íslenskum borgurum hefur ríkisstjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar byrjað á því að láta Ísland ábyrgjast erlendar skuldir, sem því koma ekkert við, svo numið getur hundruðum ef ekki þúsund milljörðum króna.

Að vísu er á þessu töfralyfi sá galli að greiðslur hefjast ekki fyrr en eftir nokkur ár. En við því hefur ríkisstjórnin fundið ráð og hyggst nú standa fyrir áður óþekktum skattahækkunum á launafólk í landinu. Þeir, sem biðja launafólki griða, fá sömu svör og þeir sem mæltust til þess að kindagreyjunum yrði ekki bjargað beint í sláturhúsið: Bæði Icesave-ánauðin og skattahækkanirnar eru algerlega nauðsynlegar.

Því miður munu áhrifin verða svipuð. Sumar vestfirsku kindanna hlupu fyrir björg fremur en að ganga í fang björgunarmanna sinna. Ekki er vafi á því að einhverjir landar þeirra muni fremur flytja frá hinu gamla föðurlandi beggja, fremur en að þiggja frekari neyðarhjálp Jóhönnu Sigurðardóttur. En hinir sem eftir verða, munu engjast undir vinstristjórninni sem mun fara með atvinnulífið eins nálægt sláturhúsinu og kjörtímabilið leyfir.

Þriðja atriðið munu björgunarleiðirnar tvær einnig eiga sameiginlegt. Þegar vart varð óánægju með örlög vestfirsku kindanna var hátíðlega tilkynnt að málið yrði rætt á næsta ríkisstjórnarfundi, sem því að vísu skyldi halda eftir slátrun skepnanna. Þegar afleiðingarnar af björgunaraðgerðum Jóhönnu Sigurðardóttur verða komnar fram á íslensku atvinnulífi, verður án efa strax skipaður starfshópur.