Við þetta hefur starfsmönnum Áróðursstöðvarinnar reynst vel að beita þeirri aðferð að finna nýtt og nýtt smáatriði til að nefna í tengslum við málið, jafnvel þó fréttagildi smáatriðisins sé nær ekkert, og nota svo það „tilefni“ til að endurþylja yfir hlustendum og áhorfendum það sem starfsmenn Áróðursstöðvarinnar vilja að greypist í minni þeirra. Hefur þeim þannig oft tekist að margsegja sömu túlkun sína á einhverju málinu dag eftir dag, jafnvel vikum saman.
Lítið dæmi um þessa aðferð mátti heyra í hádegisfréttum stöðvarinnar í dag. Þá flutti hinn hugmyndaríki fréttamaður, Þórdís Arnljótsdóttir, þá frétt að eftir hádegið myndi menntamálaráðherra greina frá því hvort ráðuneytið myndi grípa til „einhverra aðgerða“ vegna rannsóknar saksóknara á hlutabréfaviðskiptum ráðuneytisstjórans. Þessi áríðandi frétt, að eitthvað myndi fréttast síðar um daginn, varð fréttamanninum tilefni til að þylja upp hvaða fundi ráðuneytisstjórinn hefði setið og svo kom löng romsa um hverjir væru „innherjar“. Í fréttinni kom fram að ekki væri vitað hvort ráðuneytið myndi gera eitthvað, og í fréttinni var ekkert nýtt, annað en það að því var haldið fram að ákvörðun yrði tekin.
Á endanum fór svo að ráðuneytisstjórinn ákvað að láta af starfi sínu, vegna þeirrar samfelldu fjölmiðlaumfjöllunar sem hann kvað vera farna að koma niður á starfi sínu. Það var því raunverulega eitthvað að frétta af málinu um kvöldið, en í hádeginu var ekkert nýtt sem réttlætti romsur og enn eina upprifjunina.
Þ essu tengt er svo það, að auðvitað hefur enginn fréttamaður rætt það einu orði hvernig á því standi að upplýsingar um rannsókn saksóknara hafi ratað til fjölmiðla og það án þess að hinn rannsakaði hafi fengið um það nokkra formlega tilkynningu. Í gær bættist svo við önnur frétt um rannsóknir saksóknaraembættisins, sem einnig kom flatt upp á þá sem þar voru sagðir rannsakaðir. Hvernig stendur á þessu? Nú kann að vera eðlilegt að rannsókn fari fram án vitneskju þess sem er rannsakaður. Það hefur til dæmis lítið upp á sig að hlera mann og láta hann jafnframt vita af hleruninni, eins og gefur auga leið. En hvernig stendur á því að valdar rannsóknir saksóknaraembættis eiga svona greiða leið í fjölmiðla? Hver lekur og hvers vegna? Og sá sem það gerir, og rýfur þar með trúnað, hversu heill er hann í öðrum störfum sínum?