Fimmtudagur 22. október 2009

295. tbl. 13. árg.
S ama ríkisstjórn og sömu stjórnarþingmenn sem gráta hástöfum yfir hinum „blóðuga niðurskurði ríkisútgjalda“ sem þau telja sig standa í, og nemur örfáum tugum milljarða króna, eftir samfellda aukningu útgjalda undanfarin ár, leggja á sama tíma allt undir til að leggja á íslenska ríkið skuldbindingar, sem geta hugsanlega numið tvítugfaldri þeirri upphæð sem nú á að skera.

Það sýnir best þráhyggju Samfylkingarinnar, sem aldrei virðist geta séð evrópska stórþjóð upprétt, að hún keyrir Icesave-málið áfram af fullkominni hörku. Nú þegar Samfylkingin telur sig hafa beygt vinstrigræna einu sinni enn, þá telur hún sig ekkert eiga undir neinum hér innanlands. Stjórnarandstöðunni er sýnd fullkomin fyrirlitning, samstarfsflokknum fullt harðræði en staðreyndum málsins algert áhugaleysi.

Það er með algerum ólíkindum að almennir stjórnarþingmenn og velflestir fjölmiðlamenn landsins láti það óátalið, og þyki það ekki kalla á neinar spurningar, rannsóknir og úttektir, að forystumenn ríkisstjórnarinnar hviki hvergi frá því að leggja áður óþekktar erlendar skuldbindingar á íslenska ríkið, án þess að fyrir hinum erlendu kröfum sé nokkur lagastoð. Það er ekki bent á neitt, sem leggur greiðsluskylduna á Ísland. Ekkert. Það er bara sagt að „lengra varð ekki komist“ og svo er skrifað undir.

Síðari tíma mönnum mun þykja þetta algert furðuverk.

Það sýnir kannski best hve alger skorturinn á lögfræðilegum stuðningi við kröfur Breta og Hollendinga er, að þeir sem ákafast láta hér innanlands í að rökstyðja greiðsluskyldu Íslendinga, er að fyrri ríkisstjórn hafi skuldbundið landið til þess. Þegar menn eru komnir í slík þrot að þurfa að tefla þessari kenningu fram, þá er líklega fátt eftir.

Og hvers vegna er það? Jú það er vegna þessa: Eins og best sést af því að núverandi ríkisstjórn þarf að þröngva Icesave-frumvörpunum sínum gegnum alþingi, með hótunum og gólum, þá getur ríkisstjórn ekki skuldbundið land til þess að taka á sig ábyrgðir eins og þær sem Icesave-málið snýst um. Menn þurfa því ekkert að eyða tíma í ritskýringar og vangaveltur um það hvað síðasta ríkisstjórn hafi sagt eða ekki sagt. Þó hún hefði lofað og lagt við drengskap sinn dag og nótt í Downing-stræti, þá hefði það ekki skuldbundið íslenska ríkið til að ábyrgjast Icesave-skuldirnar. Ef menn hafa ekki haldbærari rök fyrir greiðsluskyldunni en einhverjar túlkanir sjálfra sín á einhverjum orðum fyrir ári, þá hafa þeir ekkert.

Enda hafa þeir ekkert. Ráðherrarnir vita það. Þingmenn þeirra óttast það. Fjölmiðlamönnunum er sama.