Þriðjudagur 25. ágúst 2009

237. tbl. 13. árg.
E ru íslenskir alþingismenn öllum heillum horfnir? Hvað ætli þurfi til að blindan falli af augum þingmanna í tæka tíð?

Í gær skrifuðu tveir starfandi lögmenn grein í Morgunblaðið um fyrirliggjandi frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um að íslenska ríkið gangist í ábyrgð vegna icesave-skulda Landsbanka Íslands hf. Grein lögmannanna er ákaflega athyglisverð og raunar ekki síður fyrir þá, ef einhverjir eru, sem deila löngun Steingríms til að frumvarp hans nái í gegn. Lögmennirnir hvetja til þess að vandlega verði kannaðir möguleikar á svonefndum skuldajöfnuði, sem myndi snúast um það að krafa Landsbanka Íslands hf. á hendur breska ríkinu, vegna hryðjuverkalaga þess, verði notuð til skuldajafnaðar gagnvart þeirri kröfu sem Bretar beina að Íslendingum. En til þess þyrfti auðvitað að lýsa kröfunni á hendur Bretum en ekki láta það ógert.

En það er ekki nóg. Þetta yrði að hafa í huga við samningsgerð við Breta – og þá mætti vitanlega ekki samþykkja fyrirliggjandi frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, þar sem beinlínis er ákvæði sem bannar allan skuldajöfnuð. Bannar beinlínis það sem gæti sparað íslenska ríkinu tugi eða hundruð milljarða króna og það hefur ekki verið nefnt í einum einasta fréttatíma.

Hvor aðilinn ætli hafi nú laumað þessu ákvæði inn í samninginn? Hvað ætli það ákvæði gæti nú kostað Íslendinga marga tugi eða hundruð milljarða króna – ef alþingismenn glepjast á að samþykkja þetta ótrúlega frumvarp sem ríkisstjórnin reynir að berja í gegn?

Og hvað ætli margir fréttamenn hafi spurt að því? Allir fréttamenn gátu hins vegar lesið hina fróðlegu grein lögmannanna í gær.

Ætli þetta veki þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að ekki sé nú beðið um meira?