Mánudagur 17. ágúst 2009

229. tbl. 13. árg.
F jölmiðlar hafa allir sem einn þagnað um icesave-ánauðina, eftir að breytingartillögur um hana voru samþykktar innan fjárlaganefndar alþingis. ICESAVE-miðlarnir, einkum Morgunblaðið og Ríkisútvarpið, halda nú niðri í sér andanum og vona að ánauðin verði afgreidd á alþingi áður en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vaknar af svefnhöfganum. Strax í gær hafði Ríkisútvarpið það sem fyrstu frétt, í hverjum fréttatíma á fætur öðrum, að einhver hjá Samtökum verslunar og þjónustu teldi að allt of mikill tími hefði farið í icesave-málið og nú bara yrði að snúa sér strax að öðrum hlutum.

Ef að þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykkja icesave-ánauðina, með eða án „fyrirvaranna“, þá er það afrek sem aðeins verður jafnað við skynsemi, sem að vísu kom úr sömu átt, þegar þingflokkurinn samþykkti að ganga til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna.

Vefþjóðviljinn ítrekar í fullri alvöru, að hver sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem ekki greiðir atkvæði gegn icesave-ánauðinni, með eða án „fyrirvaranna“ sem þeir í fjárlaganefnd samþykktu á þúsundasta vökufundi sínum, yfirgefi flokkinn tafarlaust og óski inngöngu í Samfylkinguna. Yrði þeim hvort eð er fengsælla að leita þar stuðnings en annars staðar framvegis.

S teingrímur J. Sigfússon heimtaði í gær afsökunarbeiðni frá stjórnendum bankanna, og nefndi víst Landsbankann sérstaklega, vegna þeirra búsifja sem ríkið hefði nú vegna áfalla þeirra. Við þessa kröfu Steingríms er þó það að athuga, að flestir innlendir og raunar erlendir lögfræðingar, sem hafa tjáð sig um málið, telja enga lagalega skyldu til þess að icesave-skuldir Landsbankans lendi á íslenska ríkinu, og þar með skattgreiðendum. Einn íslenskur stjórnmálamaður hefur hins vegar gert það að sínu helsta baráttumáli að skuldin lendi á skattgreiðendum, og vill ekki heyra á það minnst að skorið verði úr um þá skyldu með neinum hætti áður.

Steingrímur J. Sigfússon getur eflaust rifjað upp nafn þess stjórnmálamanns ef hann leggur sig fram, og þegar hann gengur á hans fund, til að krefjast afsökunarbeiðni, þá má hann skila kveðju frá Vefþjóðviljanum. Ef hann man hins vegar alls ekki eftir manninum þá má gefa honum þá vísbendingu að fyrir síðustu kosningar birtist af honum andlitsmynd í lítilli blaðaauglýsingu frá vefritni einu. Hinn virti og orðvari stjórnmálaflokkur, Vinstrihreyfingin grænt framboð, kærði þegar birtingu auglýsingarinnar, þó fréttamenn hafi auðvitað engan áhuga haft á því að slíkum tilraunum stjórnamálaflokks til að hindra umfjöllun um formann sinn í kosningabaráttu.

O g fyrst Steingrímur J. Sigfússon vill afsökunarbeiðni frá stjórnendum bankanna vegna áfalla þeirra, sá hann þá ástæðu til að þakka þeim áður, á þeim árum þegar bankarnir skiluðu tugmilljörðum króna í skatta til ríkisins, fyrir utan allar skattgreiðslur hálaunaðra bankastarfsmanna á sömu árum? Eða bera bankanir bara ábyrgð á því sem illa fór, en ekki hinu?